„Stella Erlingsdóttir er sögumaður í öllum þessum bókum og bækurnar fjalla um hana og það hvernig hún tekst á við lífið og tilveruna. Í hverri bók er síðan einhver fjölskyldumeðlimur sem tekur sögusviðið með henni. Það er ýmislegt á Stellu lagt. Hún er með sjúkdóm sem kemur í veg fyrir að hún geti gengið almennilega og í þessari bók er hún að berjast við að koma sér á hækjurnar,“ segir Gunnar Helgason.

Ekki góð kærasta

Spurður hvort hann skilji við Stellu á góðum stað í þessari síðustu bók segir hann: „Ritstjórinn minn var ekki alveg sáttur við staðinn sem ég skildi hana eftir á og bað mig um að skilja hana eftir á aðeins betri stað.“

Hann bætir við. „Í öllum þessum bókum er Stella að leita að sjálfstrausti og sjálfstæði. Í Mömmu klikk! er hún ekki með mikið sjálfstraust en vex ásmegin í Pabba prófessor, þar sem hún uppgötvar eftirhermu- og uppistandshæfileika sína. Í Ömmu best fer að síga á ógæfuhliðina þegar mænan tjóðrast og upp úr því lendir hún í hörmulegum atburðum. Í Sigga sítrónu þarf hún að fara í aðgerð út af þessari mænutjóðrun, þannig að hún er í rúminu alla þá bók.

Núna í Palla Playstation er hún komin á fætur og ákveður að bjarga fjölskyldunni eina ferðina enn. Palli gerir mistök, sem í augum Stellu eru spurning um líf og dauða. Henni finnst hún verða að bjarga framtíð fjölskyldunnar. Hún er með strák sem er ári eldri en hún og er góður gæi, en hún er hins vegar ekkert ægilega góð kærasta og þarf að horfast í augu við það í lok bókar. Svo skiljum við við þessa fjölskyldu þar sem allir hafa áttað sig á því að hlutirnir muni verða nokkurn veginn í lagi.“

Ofurgreindur Alexander

Þegar Gunnar skrifaði fyrstu bókina, Mömmu klikk!, hafði hann ekki bókaflokk í huga. „Mér finnst orðið svo vænt um þessar persónur og finnst óskaplega gaman að heimsækja þær. Ég ætlaði ekki að gera það en var beðinn svo oft um það af krökkum. Þessi bók varð til af því krökkum fannst vanta bók um Palla.“

Gunnar sendir frá sér þrjár bækur þetta árið. Í ágúst kemur út myndabók sem hann gerir með Rán Flygenring, Drottningin sem kunni allt nema ... Hann fer fögrum orðum um samstarfið við Rán. „Hún er þvílík listakona! Ég mjálma þegar ég tala um þessa bók því það var svo gaman að gera hana með Rán.“

Hann hefur nýlokið við bókina Alexander Daníel Hermann Dawdsson – bannað að eyðileggja! Skammstöfun á því nafni er ADHD. „Alexander er ofurgreindur og með margar greiningar. Mjög skemmtilegur og hress en hefur lent í ýmsu. Það er svo gaman að skrifa bækur um krakka og leggja alls konar vesen á þau!“

Þess skal að lokum getið að hlaðvarpsþættir Gunnars um Stellubækurnar eru væntanlegir í næstu viku á Storytel.