Söngvarinn Ed Sheeran og hokkíspilarinn Cherry Seaborn giftu sig í laumi rétt fyrir síðustu jól, ef marka má heimildarmann blaðamannsins Dan Wootton á breska götublaðinu The Sun, sem er sagður náinn söngvaranum.

Brúðkaupið fór fram á sveitasetri ofurstjörnunnar í Suffolk og var brúðkaupið afar fámennt en einungis nánustu vinum og fjölskyldu var boðið en samkvæmt umfjölluninni mættu rúmlega fjörutíu manns í athöfnina.

„Þetta var mjög rólegt, bara elstu vinir Ed, nánustu fjölskyldumeðlimir og prestur. Hann vildi ekkert vesen og hann vildi að þetta snerist eingöngu um þau, að þetta væri bara lítið vetrarbrúðkaup,“ segir heimildarmaðurinn. „Hvorugt þeirra var spennt fyrir því að gera mikið úr þessu.“

Hvorki Ed né Cherry hafa tjáð sig um umrætt brúðkaup en söngvarinn birti Instagram mynd af sér og Cherry í upphafi ársins 2018 þar sem hann tilkynnti heiminum að um væri að ræða unnustu sína. 

Parið hefur haldið einkamálum sínum fyrir sjálft sig og tjáir söngvarinn sig til að mynda sjaldan um sambandið á samfélagsmiðlum og er nokkuð lítið vitað um Cherry Seaborn annað en að hún er einkar fær hokkíspilari og hefur leikið með enska landsliðinu.