Lucy er lærður félags- og sjúkraliði og starfar í dag á gjörgæslunni í Fossvogi. „Ég er gift sjómanni og saman eigum við fjögur börn,“ segir hún. Þau búa í Hafnarfirðinum í tvílyftu húsi sem þau keyptu af bankanum og „tóku í nefið“ eins og hún orðar það létt í bragði.

Bjuggu í hjarta Seyðisfjarðar

„Ævintýrið hófst þegar við fluttum á Seyðisfjörð og keyptum gamalt hús við Vesturveg af bænum. Húsið, sem var byggt 1907, var í slæmu ásigkomulagi enda hafði það staðið autt og opið fyrir Pétri og Páli í 11 ár. Búið var að spreyja á loftið, brjóta handriðið og fleira. Árið ’95 stóð til að nýta það í slökkviliðsæfingu og kveikja í því, en húsafriðunarsinnar mótmæltu því. Menn bundu vonir við að einhver myndi kaupa húsið og gera það upp.

Húsið á Seyðisfirði áður en fjölskyldan tók það í gegn. Mynd/aðsend

Fjórum árum síðar flytjum við fjölskyldan á Seyðisfjörð. Arnar, maðurinn minn, vann á sjó og ég var með fjögur börn á aldrinum 1-10 ára. Systir mömmu bjó í þorpinu og við vorum góðar vinkonur. Seyðisfjörður var því góður kostur fyrir okkur og er Seyðisfjörður líka besti staður í heimi til að ala upp börnin sín á.“

Hálfu ári eftir að fjölskyldan kom á Seyðisfjörð keyptu þau húsið við Vesturveg. „Við gerðum okkur enga grein fyrir því hvað við værum að fara út í. Magnús Skúlason, sem var yfir húsafriðunarnefndinni, var okkur innan handar og við gerðum húsið upp eftir öllum kúnstarinnar reglum. Húsið er á besta stað í bænum. Einn upprunalegur gluggi fannst í húsinu sem var notaður til að smíða upp alla gluggana með gluggaskrauti og öllu. Við héldum öllum gólfefnum í húsinu og gerðum þau upp. Nýtt handrið var smíðað og smiðurinn gróf upp fremsta stykkið af því og nýtti einnig. Þá gerðum við upp gamla baðkarið á staðnum sem stóð á einum fæti og bróðir mömmu lét smíða nýja eftir fætinum eina. Svo var það allt lagað og sprautað á Seyðisfirði.

Það var gífurlegur munur á húsinu á Seyðisfirði eftir að það var tekið í gegn. Mynd/aðsend

Við keyptum húsið á 300.000 krónur af bænum og lofuðum Ólafi bæjarstjóra að við myndum klára að gera húsið upp að utan á tveimur árum. Annars myndi það kosta okkur 500.000 krónur. Við erum bæði virk hjónin og því stóð ekki til að svíkja það. Það tókst líka. Fjórtán mánuðir liðu frá því við keyptum húsið uns við fluttum inn. Þá var það orðið íbúðarhæft. Eftir það þurfti þó að dytta að ýmsu, eins og að laga kjallarann, setja svalirnar upp, laga til í garðinum og fleira.“

Lucy og Arnar eru bæði handlagin og sáu að mestu sjálf um að gera húsið upp. „Arnar sá um framkvæmdirnar á meðan ég „dekoreitaði“,“ segir Lucy. Sama var uppi á teningnum í húsinu sem þau búa í núna í Hafnarfirði. „Þegar ég bjó á Seyðisfirði eltist ég við alla antíkmuni og vandaði til verka við að velja. Ég er mjög hrifin af danskri antík og var með hana alls staðar í húsinu. Ég hef alltaf haft gaman af því að skreyta í kringum mig og var með lampa í öllum gluggum. Þá skreytti ég alltaf um jólin og setti glærar seríur og greni á handriðin. Svo átti ég gamlan sveitasíma og fleira. Við bjuggum á Seyðisfirði í nítján ár en þegar við seldum tvístruðust munirnir svo út og suður.“

Úr einum firði í annan

„Þegar krakkarnir fluttu í bæinn og eignuðust börn, þá bjuggu allir í kringum okkur í Hafnarfirðinum eða í Garðabæ. Sjálf er ég líka alin upp í Hafnarfirði. Maður er þar sem fólkið manns er og ég var orðin ein eftir fyrir austan, með hundinn. Það var því að hrökkva eða stökkva.

Ég kom í bæinn í desember 2017 og hóf störf á gjörgæslunni í janúar 2018. Við seldum ekki húsið fyrir austan strax því ég vildi sjá hvernig mér liði fyrir sunnan. Í maí 2018 seldum við loks húsið og fluttum alfarið í Hafnarfjörðinn. Ég sé alltaf eftir húsinu á Seyðisfirði og ber miklar taugar til þess, staðarins og fólksins sem þar býr. En það yljar mér að sjá myndirnar og rifja upp minningarnar.“

Hér má sjá stofuna í húsinu í Hafnarfirðinum áður en Lucy gerði sína galdra. Mynd/aðsend

Húsið í Hafnarfirðinum

„Fyrir tæpum fimm árum keyptum við húsið sem við búum í núna. Það þurfti að gera margt enda hafði það verið í útleigu í mörg ár. Við vissum að þessu sinni út í hvað við vorum að fara og litum á það sem spennandi verkefni. Húsið var engan veginn í jafn slæmu ástandi og húsið á Seyðisfirði. Við byrjuðum á því að skipta um gler enda voru sumar rúðurnar brotnar. Við máluðum húsið í fallegum gráum lit og skiptum um þakkant á öllu húsinu. Fyrstu þrjú árin bjuggum við í húsinu með átta mismunandi gólfefnum og hlutirnir voru svona alls konar á meðan við kynntumst húsinu. Nú í vetur kláruðum við allt sem við ætluðum okkur. Við vorum að leggja lokahönd á bílskúrinn og erum að taka planið fyrir framan og dytta að ýmsu smotteríi fyrir utan, eins og að smíða fyrir ruslatunnurnar og setja blómabeð á bílastæðið. Flest gerum við sjálf, nema að við fengum málara í að mála húsið að innan. Arnar braut upp allar flísar í húsinu og múrari flísalagði fyrir okkur. Einnig létum við sprauta dökkbrún þilin í loftinu hvít.

Stofan er nú allt önnur í Hafnarfirðinum og er stemningin einstaklega notaleg. Mynd/aðsend

Húsið er í heild 260 fermetrar og við búum á efri hæðinni sem er um 140 fermetrar. Á neðri hæðinni er íbúð sem við leigjum út. Einn risastór kostur er við þetta hús, fram yfir húsið á Seyðisfirði. Hér búum við á einni hæð. Húsið á Vesturvegi var á þremur hæðum með þvottahús í kjallaranum. Ég var því á þönum allan daginn með þvottinn ofan af efstu hæðinni, þar sem herbergin voru, niður í kjallara til að þvo og svo aftur upp með hreina tauið. Hér erum við líka með stórt sjónvarpsherbergi, stofu og borðstofu og getum tekið á móti öllu liðinu þegar það kemur í heimsókn. Því verður þó ekki neitað að Seyðisfjörður á alltaf hjarta mitt.“

Borðstofuborðið sem Lucy gerði upp handa dóttur sinni er úr gegnheilum mangóvið. Mynd/aðsend
Lucy málaði borðið svart og lakkaði með parketlakki yfir. Núna passar það fullkomlega heim til dótturinnar. Mynd/aðsend

Gerir upp nytjamuni

Lucy hefur gaman af því að skoða nytjamarkaði og finna þar muni og húsgögn sem hún gerir upp fyrir sig eða vini og vandamenn. „Hér heima á ég helling úr Góða hirðinum eða ABC Barnahjálp, og marga hef ég gert upp. Þar stendur arinninn upp úr en hann fékk ég í Góða hirðinum rétt eftir að við fluttum í húsið í Hafnarfirði. Hann var settur á langan stóran vegg og hefur staðið þar síðan með æðislegum járnspegli sem ég fékk í The Pier. Arinninn hafði líklega staðið á verkstæði því að ég þurfti að hreinsa steypu neðan af honum. Hann var viðarlitaður en ég málaði hann mattan svartan. Svo fann ég risastóran skrautplatta í Húsgagnahöllinni sem smellpassaði inn í arininn og gerði mubluna enn veglegri.

Arinninn sem Lucy fann í Góða hirðinum er fallegur á heimili hennar í Hafnarfirðinum. Spegillinn er úr The Pier og skrautplattann fann hún í Húsgagnahöllinni. Fréttablaðið/8Sigtryggur Ari
Lucy tók þetta indverska viðarborð í gegn.
úr því bjó hún til þessa gluggaskerma sem sóma sér vel í húsinu í Hafnarfirði.

Ég hef líka búið til gangaborð úr gömlum borðstofuborðum með vinkonu minni og selt. Þá saga ég borðin í tvennt, mála og svo eru þau fest á vegginn. Einnig keypti ég notað borðstofuborð handa dóttur minni úr gegnheilum mangóvið, tók það í gegn, pússaði, málaði svart og lakkaði með parketlakki. Ég hef líka málað húsgögn fyrir aðra en mest geri ég hluti fyrir mig og fjölskyldu mína.

Gangaborðin sem ruku út eins og heitar lummur.

Svo verð ég að minnast á kínverska stríðsmanninn minn. Ég féll fyrir honum á Alicante í sumar og hann varð að koma með mér heim. Hann er 125 sentímetrar á hæðina og nokkuð þungur. En ég klæddi hann í fullt af fötum, vafði honum í bóluplast og það slapp að borga undir hann ferðatösku og ferja hann heim þannig. Það var í rauninni ótrúlega lítið mál,“ segir Lucy og hlær.

Hér má sjá litlu ástina í lífi Lucy, kínverskan stríðsmann semhún féll fyrir á Alicante. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari