Tuttugu listamenn, erlendir sem innlendir, munu taka þátt á listahátíðinni List í ljósi sem fram fer á Seyðisfirði um helgina.

Þetta er í sjöunda sinn sem hátíðin er haldin og er tilgangurinn líkt og áður að fagna endurkomu sólarinnar í fjörðinn eftir langan og dimman vetur.

Seyðfirðingar munu slökkva ljósin og munu ljóslistaverk um allan bæ þá fá sitt pláss í myrkrinu í umsjá hátíðarstjóranna Sesselju Jónasardóttur og Celiu Harrison.

„Árið 2022 fögnum við List í ljósi í sjöunda sinn og erum afskaplega stolt af og glöð að taka á móti 27 verkum frá bæði innlendum og erlendum listamönnum,“ segir Sesselja.

„Við komum sterk til baka eftir erfitt ár, bæði vegna Covid-19 og aurskriða sem féllu á bæinn okkar í desember 2020. Í ár höfum við skapað eitthvað alveg einstakt sem vert er að hlakka til.“

Aðgangur er ókeypis á viðburði hátíðarinnar en þar aka stjórnendur Flat Earth Film Festival til dæmis um á smárútu og bjóða gestum og gangandi upp á það sem þeir kalla einstaka upplifun.

Þá gefst gestum og bæjarbúum tækifæri á að sjá gagnvirk listaverk lifna við og hvetja hátíðarhaldarar fólk til að taka klink með sér, þannig að af nógu er að taka. Ágóðinn rennur í Votlendissjóð og hefur verkið sem um ræðir komið víða við á hátíðum um allan heim en verður nú til sýnis í fyrsta skipti á Íslandi.