Karlotta Laufey og stelpurnar í goth-versluninni Rokk&Rómantík hafa brugðist við samkomubanninu með ýmsum ráðum. Þær halda þó sínu striki og hafa virkjað sköpunargáfuna í þágu málstaðar hinnar gotnesku rómantíkur sem svífur yfir versluninni.

„Auðvitað er í ljósi aðstæðna rólegt að gera í versluninni en við erum á fullu að sauma fleiri grímur og það rýkur úr saumavélinni,“ segir Karlotta Laufey verslunarstjóri um þá ákvörðun stelpnanna að nýta dauðar stundir í búðinni til þess að hanna og framleiða andlitsgrímur.

Munúð á ögurstundum

„Þetta er bara eitthvað sem okkur datt í hug að gera enda verðum við svolítið að taka einn dag í einu og höfum ákveðið að stytta opnunartímann hjá okkur örlítið í bili,“ segir Karlotta sem er nú með opið milli klukkan 12 og 17 á virkum dögum.

Málmstungan sýnir plágu­lækni að störfum í kringum 1656. Í goggi grímunnar, sem er allt annars eðlis en þær sem framleiddar eru í búðinni, voru ilm­jurtir sem ætlað var að hreinsa pestarloftið.
Fréttablaðið/Samsett

„Klæðskerinn okkar hún Ásta er æðisleg og hún hannar og saumar grímurnar hjá okkur. Við erum líka með falleg efni til að vinna úr og þá er best að nýta tímann í smá skapandi grímuvinnslu.“

Andlitsgrímurnar í Rokk&Rómantík eru að sjálfsögðu í þeim munúðarfulla anda sem einkennir verslunina og rétt að láta þess getið að fyrst og fremst eru þær fylgihlutir undarlegra tíma en veita ekkert frekar vörn gegn kórónaveirunni en aðrar slíkar grímur.

Pestargoggar

„Við höfum selt grímur í tæp þrjú ár og eigum til dæmis oftast til leður-, stál- og gaddagrímur, segir Karlotta og bætir við að í þessu ástandi muni þær jafnvel sauma grímur úr pallíettum og latexi. „Við bara reynum að láta ímyndunaraflið ráða,“ segir Karlotta.

Karlotta og stöllur hennar fara að öllu með gát, passa upp á tveggja metra regluna og vísa hiklaust á vefsíðu Rokk&Rómantík.
Fréttablaðið/Ernir

„Við vorum með plágugrímur á tímabili svo við vonum að þeir sem keyptu þær á þeim tíma geti nýtt sér þær þessa dagana og aldrei að vita nema við fáum fleiri á næstunni,“ segir Karlotta á léttu nótunum þegar hún er spurð um hinar mjög svo gotnesku, gamaldags plágulæknagrímur með gogginum.

Unaður upp að dyrum

Eins og fleiri fleiri hafa stelpurnar í Rokk&Rómantík lagt áherslu á netverslun í núverandi ástandi. „Það er aðeins aukning í netversluninni og fólk er jafnvel að panta sér nærföt, nuddolíur og unaðsvörur til að njóta saman heima við,“ segir Karlotta og hvetur þó til varúðar.

„Við mælum með því að fólk nýti heimaveruna í meiri nánd og njóta þess að vera saman. Ef aðstæður leyfa,“ segir Karlotta og hvetur ekki síður til heimsókna á goth.is en í búðina sjálfa.

„Það sakar ekki að við erum með fría heimsendingu upp að dyrum á höfuðborgarsvæðinu og sendum frítt út á land. Við mælum með að fólk nýti „cher“ það. Skoðið úrvalið, fáið ykkur jafnvel eitthvað fallegt, verið næs við hvort annað og passið upp á heilsuna.“