HBO Max hefur staðfest að ný þáttaröð um vinkonurnar í Sex and the City, Beðmál í borginni, er væntanleg.

Þáttaröðin ber heitið „And Just Like That...“

Sarah Jessica Parker (Carrie), Cynthia Nixon (Miranda) og Kristin Davis (Charlotte) munu fara með aðalhlutverkin í þáttaröðinni en Kim Cattrall sem fór með hlutverk hinnar óborganlegu Samönthu vildi ekki taka þátt í endurkomunni.

Kim Cattrall sem fór með hlutverk Samanthu Jones (til vinstri) mun ekki vera með í nýrri þáttaröð um vinkonurnar vinsælu.
Fréttblaðið/ Getty images.

Leikkonurnar hafa allar deilt stuttu myndbandi á Instagram sem sýnir New York borg ásamt tölvuskjá þar sem stendur, „Og sagan heldur áfram."

Sarah Jessica Parker deildi myndbandinu með fleygu orðunum „I couldn’t help but wonder... where are they now?," eða „ég get ekki annað en velt fyrir mér, hvar eru þær núna?"

Eins og aðdáendur þáttanna þekkja vel byrja ófáir þættir á orðunum „I couldn't help but wonder."

Samkvæmt heimildum Deadline verða þættirnir tíu talsins og fjalla um hversdagslífið og vináttu Carrie, Mirandu og Charlotte á fimmtugsaldrinum. Tökur eiga að hefjast í New York í vor.

Blaðamaðurinn Carrie Bradshaw sem er leikin af Söruh Jessica Parker þótti ein best klædda kona tíunda áratugsins. Hér er hún kjól eftir bandaríska hönnuðinn Richard Tyler.
Fréttblaðið/ Getty images.

Snúa aftur eftir ellefu ára bið

Beðmál í borginni voru frumsýndir árið 1998 og fjalla um líf fjögurra vinkvenna í New York, þeirra Carrie Bradshaw, Mirandu Hobbes, Samanthu Jones og Charlotte York. Þáttaröðin var búin til af Darren Star eftir samnefndri bók Candace Bushnell.

Þættirnir nutu gríðarlegra vinsælda um allan heim og gera enn þann dag í dag. Alls komu út sex þáttaraðir og 94 þættir en lokaþátturinn fór í loftið árið 2004. Þá hafa verið gerðar tvær kvikmyndir um vinkonurnar sem komu út árið 2008 og 2010.