„Sex and the city,“ eða „Beðmál í borginni,“ eins og þættirnir kallast á íslensku, voru meðal vinsælustu sjónvarpsþátta aldamótanna, ef stuðst er við áhorfstölur frá Bandaríkjunum. Lokaþáttur sjöttu þáttaraðar varð mest áhorfði þáttur bandarískrar sjónvarpssögu þegar hann kom út árið 2004.

Í kjölfarið fylgdu tvær bíómyndir sem hver um sig var sjálfstætt framhald, hin fyrri 2008 og sú seinni 2010.

Þættirnir snerust um líf framakvenna á Manhattan, og eru af sérfróðum talnir stórt framlag til sjónvarpssögunnar. Ótal fræðigreinar hafa verið ritaðar um þættina, þeir endurskoðaðir í seinni tíð og krufnir út frá femínískum vinkli. Persónurnar hafa verið gagnrýndar fyrir grunna valdeflingu í gegnum það að versla sér dýra hluti. Þættirnir hafa einnig þótt eldast miður vel sé litið til lýðfræðilegrar fjölbreytni sögupersóna, en langflestar persónurnar eru gagnkynhneigðar og hvítar.

Í uppgjöri við eldri þætti

Það sem á sínum tíma þótti ef til vill framsækið kann í dag að þykja tímaskekkja, en Marisa Crawford skrifar í ítarlegri grein á Bust, um arfleifð þáttanna, að mikilvægi þáttanna hafi falist í því að sjá reynsluheim kvenna í mynd á hátt sem ekki hafði sést áður. Hún tekur einnig fram að þættirnir hafi sætt harðari gagnrýni en aðrir gamanþættir frá sama tímabili, og nefnir Seinfield sem dæmi.

Vefmiðlar á borð við Buzzfeed hafa til að mynda birt lista yfir atriði sem ekki þættu standast skoðun í dag. Þar er talað um staðalmyndir af gyðingum og samkynhneigðum, drusluskömmun, hópþrýsting til kynferðislegra athafna, forréttindablindu og fleira.

Lucy Mangan, gagnrýnandi breska blaðsins The Guardian segir handritshöfunda þáttanna meðvitaða um þetta og reyna sitt besta til að glíma við öll þessi atriði. Hún er þó ekki fyllilega sátt við útkomuna eftir áhorf á fyrsta þáttinn og gefur þáttunum þrjár stjörnur.

Kim Catrall fjarri góðu gamni

Fyrstu þættirnir bygggðu á samnefndri bók eftir Candace Bushnell. „And just like that,“ er sjálfstæður afleggjari, frekar en framhald. Eldri þættirnir hverfðust um líf fjögurra vinkvenna á Manhattan, Carrie, Samönthu, Charlotte og Miröndu. Í þetta sinn er fjórðu vinkonuna hvergi að sjá, en leikkonan Kim Catrall sem fer með hlutverk Samönthu afþakkaði þáttöku í nýju þáttaröðinni.

Í viðtali við Piers Morgan í október 2017 sagði Kim Catrall frá því að hún hefði ekki í hyggju að leika hlutverk Samönthu nokkru sinni aftur, eftir sextugt hafi hún talið nóg komið og í kjölfarið lokað þeim kafla í lífi sínu.

Aðalleikona þáttanna, Sarah Jessica Parker, mætti á forsýningu nýju þáttanna á nútímalistasafni New York borgar, MOMA. Mynd/EPA
EPA
Leikkonan og aktívistinn Cynthia Nixon sem fer með eitt aðalhlutverkanna í þáttunum. Hún hefur látið til sín taka í bandarískum stjórnmálum en hún bauð sig fram til ríkisstjóra New York fylkis árið 2018. Mynd/EPA
EPA
Leikkonan Kristin Davis fer með hlutverk Charlotte í þáttunum. Mynd/EPA
EPA
David Eigenberg og Chrysti Eigenberg. David er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum sem karakter að nafni Steve. Mynd/EPA
EPA