Ariana Grande, Billie Eilish, The Weeknd. Þetta eru meðal stærstu nafna í popptónlistarheiminum og eru þau öll á mála hjá Universal-útgáfufyrirtækinu. Núna er Birkir Blær Óðinsson, rúmlega tvítugur söngvari og lagahöfundur frá Akureyri, með samning hjá sama fyrirtæki, eftir sigur í sænska Idolinu.

Feimni og kurteisi á Akureyri

„Ég er ekki enn þá kominn með þetta allt á hreint,“ svarar Birkir Blær, jarðbundinn og hógvær að vanda, þegar blaðamaður innir hann eftir verðlaunum. „Maður vinnur ekki einhverja verðlaunaupphæð heldur er þetta svolítið flókið. Universal gat garanterað ákveðnar tekjur undir tímabilinu sem ég myndi vera á samningi hjá þeim.“

Samningstímabilið er fyrst um sinn níu mánuðir og felur í sér upptöku og dreifingu á nýju efni.

Birkir Blær, sem búsettur er í Svíþjóð, var um jól og áramót á Íslandi. Hann segist hafa verið ánægður með að fá að verja tíma með fjölskyldunni og hvíldinni feginn þegar hann kom til Akureyrar, þar sem enginn truflar hann á meðan hann er úti að sinna erindum.

„Akureyringar eru svona feimnir, hálfpartinn. Fólk var ekkert að trufla mann of mikið.“ Þó hafi fólk vissulega óskað honum til hamingju.

„Þetta var kurteislegt allt saman. Það var ekki verið að stoppa mann þegar maður er að borða.“

Lögin sem hann vildi hafa samið

Nú er Birkir Blær þó kominn aftur til Svíþjóðar eftir verðskuldað jólafrí. „Nú er ég búinn að vera að spila gigg, í einhverju sjónvarpsdóti og svoleiðis. Svo er ég að fara að byrja í stúdíóinu að búa til nýja tónlist.“

Svíar eru frægir fyrir popptónlist, og stórt hlutfall af vinsælasta bandaríska poppi heims er til að mynda samið af sænskum pródúserum. Það má jafnvel segja að Svíar séu eins konar ókrýndir heimsmeistarar í poppi. Því kunna fulltrúar Universal í Svíþjóð vel til verka og eru þessa dagana að raða saman svokölluðu draumateymi fyrir Birki Blæ, teymi sem á að gera honum kleift að semja þá tónlist sem hann sér fyrir sér. „Ég er að skila af mér lista af lögum sem ég vildi að ég hefði samið sjálfur. Þau eru þannig að leita að rétta fólkinu fyrir mig til að vinna með. Ég er að ákveða hvað ég vil gera, en ég hlusta á svo mismunandi tónlist. Ég er að skoða hvaða stefnu ég vil taka.“

Vill myrkt popp

Aðspurður hvaða stílar komi til greina, segist Birkir Blær vera að horfa til dekkri blæbrigða poppsins. „Ég er mikið fyrir Billie Eilish, til dæmis,“ svarar hann. „En ég vil líka að það sé mikill söngur. Mér fyndist mjög næs að geta samið lög sem eru svolítið krefjandi, sönglega séð. Eins og Adele. Þannig að ég er að reyna að blanda þessu saman.“

En hvaða sænska fagfólki vill Birkir Blær helst af öllu fá að vinna með?

„Ef ég mætti velja hvern sem er væri það Max Martin,“ svarar hann. „Ég held samt að hann sé á aðeins of háu leveli,“ segir hann og hlær við.

Risi í poppheiminum í salnum

Þó er það ekki endilega of langsótt þar sem sænski lagahöfundurinn og pródúserinn Max Martin var í salnum á úrslitakvöldi Idolsins og horfði á Birki Blæ landa sigrinum í eigin persónu. Max Martin er maðurinn á bak við marga af stærstu smellum poppheimsins síðustu áratugi. Má þar nefna risasmelli með Taylor Swift, Ariönu Grande, The Weeknd, Katy Perry, Ed Sheeran, Backstreet Boys og Britney Spears. Svona mætti lengi telja.

Eitt er þó víst og það er að afurðin úr stúdíótímum Birkis Blæs næstu vikur verður algjörlega nýtt efni. „Það er rosalega mikilvægt fyrir mig að geta meint það sem ég er að syngja. Þannig vil ég gera það, að semja texta sjálfur og vera eins mikill þátttakandi og ég get í að semja og pródúsera. En auðvitað með hjálp, svo að hvert lag taki ekki marga mánuði,“ segir hann og skellihlær. „En ég vil ekki fá tilbúið lag og syngja það bara og gefa það út. Ég vil semja lögin mín sjálfur.“