Hér er lögð áhersla á heilsu, samfélag og sköpun,“ segir Eva Rún Michelsen, verkefnastjóri hjá hinu nýopnaða Lífsgæðasetri við Suðurgötu í Hafnarfirði. Hún fer með okkur Fréttablaðsfólk inn á langan gang með litlum fyrirtækjum á báðar síður sem hafa komið sér þar fyrir á aðlaðandi hátt. Upprunalegur gólfdúkur er eftir miðjum ganginum og arkitektúr Guðjóns Samúelssonar, húsameistara er víða sjáanlegur.

Fimmtán hafa þegar byrjað starfsemi, auk Leikfélags Hafnarfjarðar sem er í kapellunni á neðstu hæð. Þau bjóða upp á margvíslega þjónustu sem öll miða að bættri líðan og lífsháttum einstaklinga. Má þar nefna kynlífsmarkþjálfun, forvarnarfyrirlestra, núvitundarheilun, jóga, fjölskylduráðgjöf, stuðning í fæðingarferli, sál og líkamsmeðferð, ADHD- og einhverfurófs markþálfun, ráðgjöf til syrgjenda, heilsueflandi ferðir og aukin lífsgæði eldri borgara.

„Þetta er kallað kósýhornið,“ segir Eva Rún verkefnastjóri þegar við kíkjum inn í þetta herbergi sem er aðsetur Yogahússins. Þær sem þar ráða ríkjum eru með hóp inni í sal þar sem þær hafa fasta starfsemi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Stærsta herbergið er um það bil fyrir miðjum gangi. „Hér er okkar kaffistofa, miðstöð, hér hittast allir og spjalla. Við köllum þetta hjartað. Enn vantar samt stóra setbekkinn sem mun umlykja það,“ segir Eva Rún. Hennar aðstaða er í litlu herbergi þar inn af. Það er heilinn.

Í fyrrum sjúkrastofu og línherbergi er sögusýning til minningar um þá starfsemi sem var í húsinu í áratugi. „Við viljum halda uppi heiðri St Jósepssystra og St Jósepsspítala og báðum Byggðasafn Hafnarfjarðar að setja upp þessa fallegu sýningu með munum sem það hafði varðveitt,“ segir Eva Rún. Safnið á líka flöggin sem voru notuð við vígsluna 1926, við fáum þau til afnota.“

Unnur Edda Garðarsdóttir, mannfræðingur og jógakennari og Steinunn Thorlacius Garðarsdóttir meðferðaraðili í áfallameðferð í fræðasetrinu Unnandi. Lengst til hægri er Birna Rut Björnsdóttir, sál-og líkamsfræðingur hjá Rótum.

Eva Rún segir St Jósepssystur hafa látið byggja spítalann. Í upphafi hafi verið rými fyrir 40 sjúkrarúm og aðstaðan verið góð. „Þetta var systraregla sem vann að góðgerðarmálum í þágu fólks. Fyrsti hlutinn kostaði um 300 þúsund, eitthvað fengu þær lánað og fyrstu tíu árin fengu þær frítt rafmagn. Þær voru með matjurtagarð við húsið og þar voru berjarunnar líka. Á Jófríðarstöðum fengu þær mjólkina, þannig að vistsporið var lítið. Nunnurnar voru nýtnar, voru með saumastofu og gerðu við lökin eftir þörfum. Svo önnuðust þær sjúklingana líka.“

Hæðin sem búið er að taka í notkun er um 650 fermetrar en allt er húsið 3000 fermetrar svo enn er þar verk að vinna.

Lára Janusdóttir og faðir hennar Janus Guðlaugsson í Janus heilsueflingu sem vinnur að meiri lífsgæðum eldri borgara.
Maritza Pacifico og Þórarinn Ívarsson, alltaf kallaður Tóti, í samtökunum Veraldarvinir sem hafa starfað á Íslandi í átján ár. Samtökin taka á móti um 2000 erlendum sjálfboðaliðum árlega sem hreinsa fjörur, planta trjám og laga göngustíga.
Rakel Róbertsdóttir er þroskaþjálfi og líka lærð í fjölskyldumeðferð. Hún er í fyrirtæki sem nefnist Lex familia. „Við erum tvær með þetta rými, Sóley Guðmundsdóttir býður upp á þjónustu með fjölskyldurétt.
Sunna Björk Skarphéðinsdóttir í fyrirtækinu Örmælir, frumkvöðlafyrirtæki sem þróar tæki til heilbrigðisrannsókna. „Við erum þrjú sem vinnum að þessu verkefni og eigum Örmæli. Ásamt mér eru það Einir Guðlaugsson og Andri Björn Eiðsson,“ segir hún.
Kristín Þórsdóttir, verðandi kynfræðingur og kynlífsmarkþjálfi í fræðasetrinu Eldmóði heldur forvarnarfyrirlestra í grunn-og framhaldsskólum. Hún er með sparisófa ömmu mannsins síns í stofunni sinni.
Fánarnir sem notaðir voru þegar St. Jósefsspítali var vígður árið 1926 prýðir ganginn.
Samverustofa starfsfólksins nefnist Hjartað. Heilinn, skrifstofa verkefnisstjórans er á næstu grösum.