Menning

Setur hefðina í nútímasamhengi

Tónskáldið Abraham Brody kemur fram í Klúbbi Listahátíðar. Vinnur með forn litháísk stef. Íhugar að flytja til Íslands.

„Ísland er suðupottur sköpunar,“ segir Abraham Brody. Fréttablaðið/Þórsteinn

Litháísk-bandaríska tónskáldið og hljóðfæraleikarinn Abraham Brody kemur fram í Klúbbi Listahátíðar, Tryggvagötu 17, í kvöld miðvikudagskvöld. Í tónlist hans mætir nútíminn hefðinni en listamaðurinn fléttar forn litháísk stef inn í tónsmíðar sínar og notast við margslungnar lúppur, rödd, fiðlu, píanó og önnur hljóðfæri. Ásta María Kjartansdóttir verður gestur á tónleikunum og spilar á selló.

Brody ólst upp í Bandaríkjunum en móðir hans er frá Litháen. „Ég ólst upp í Bandaríkjunum án þess að þekkja litháíska menningu og þessi tónlist var ekki í umhverfi mínu. Þegar skorið er á rætur fólks fer það seinna meir að leita þeirra,“ segir Brody. „Sautján ára gamall fór ég til Austurríkis í tónlistarnám og eftir það bjó ég sex ár í London og á þeim tíma fór ég fyrst til Litháen. Mér leið strax eins og ég hefði komið þangað áður og þar kynntist ég tónlistarmenningu landsins. Þegar ég heyrði þessi fornu litháísku stef fyrst sungin varð ég hugfanginn og byrjaði að vefa þau inn í tónlist mína. Í fyrstu var þetta leið til að nálgast rætur mínar en þetta er líka mín aðferð við að skapa tónlist sem hefur áhrif á áheyrendur. Það er mikill kraftur í þessari tónlist, melódían er falleg og þunglyndisleg, og áheyrendur heillast af henni.

Ég flutti til Litháen fyrir nokkrum árum en ferðast mikið. Að sumu leyti finnst mér ég vera meiri Lithái en Bandaríkjamaður. Fjölskylda mín býr í Bandaríkjunum og er mér mjög kær, en þegar kemur að því að skilgreina sjálfan sig þá er ég 70 prósent litháískur. Smáhluti af mér er svo tengdur Íslandi, mér þykir vænt um þetta land.“

Blaðamaður hefur orð á því að Íslendingar hafi sterkar taugar til Litháen. „Það er gagnkvæmt, segir Brody. „Hugarfarið í þessum löndum er svipað, þar er falleg depurð áberandi. Bæði Íslendingar og Litháar eiga í sterku samband við náttúruna og bæði löndin eru lítil og tungumál þeirra er einstakt. Þið voruð undir Dönum, við vorum undir Rússum sem vildu gleypa okkur. Í þessari viku er einmitt Íslandsvika í Litháen, Litháar elska Ísland því þið voruð fyrst til að viðurkenna sjálfstæði landsins.“

Snobb í klassíkinni

Í flutningi sínum leggur Brody mikið upp úr því að ná sambandi við áheyrendur. „Á klassískum tónleikum situr fólk alvarlegt og kyrrt, mér leiðist það,“ segir hann. „Ég lærði klassíska tónlist í Vín, þar sem allt er einstaklega íhaldssamt, og ég hætti í miðjum klíðum því ég þoldi það ekki og lauk náminu í London, þar ríkti líka ákveðin íhaldssemi en samt ekki jafnmikil og í Austurríki. Það er of mikið menningarlegt snobb í kringum klassíska tónlist, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þar er klassísk tónlist einungis ætluð elítunni og miðaverð er of hátt. Ég hef lagt mig eftir því að ná til áheyrenda og vil gera þá virka í upplifuninni. Tónleikar mínir geta einkennst af tilraunatónlist, innsetningum og vídeó. Á tónleikunum í kvöld í Klúbbi Listahátíðar nota ég til dæmis vídeó. Verkin eru bæði nýleg og eldri. Ég er spenntur að kynna nýrri verk mín fyrir íslenskum áheyrendum. Nýrri verk mín eru um persónulegt líf mitt og minnar kynslóðar og tengjast ekki þjóðfræði eins og eldri verkin.“

Vill hrista upp í íhaldsseminni

Spurður um hvernig viðtökur verk hans fá segir Brody: „Viðtökur fara eftir áheyrendum. Á tónleikaferð í Bandaríkjunum var ég með hópi litháískra kvenna sem sungu þessi fornu litháísku stef og fólk varð yfir sig hrifið, hafði aldrei hlustað á neitt sem líktist þessu. Í Litháen eru viðtökur á báða vegu. Sumir eru mjög hrifnir, aðrir ekki. Ég set þjóðhefðina í nútímasamhengi og það líkar ekki öllum.

Það eru ákveðnir þættir í litháísku samfélagi sem ég heillast af eins og tónlistarhefðin en Litháar geta líka verið ákaflega íhaldssamir. Ég er að fara í nýjar áttir með tónlist mína, kannski til að hrista aðeins upp í þessari íhaldssemi. Í sumar vinn ég tónlistarmyndband þar sem meðal annars er komið inn á stöðu kvenna og hlutskipti samkynhneigðra og transfólks.“

Íhugar að flytja til Íslands

Brody er svo heillaður af Íslandi að hann íhugar jafnvel að flytja til Íslands. „Þetta hljómar örugglega eins og klisja en íslensk náttúra er stórbrotin og hlýtur að veita listamönnum innblástur. Hér er svo mikið af skapandi og hugmyndaríku fólki. Ísland er suðupottur sköpunar. Íslendingar eru ekki afturhaldssamir og eru óhræddir við að gera alls konar tilraunir. Hér gæti ég lært margt og sogað í mig áhrif,“ segir Brody.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Menning

Bíó­dómur: Svart­hvítur heimur í fögrum litum

Menning

Fimm hlutu Fjöru­verð­launin í Höfða

Menning

Les ljóð eftir Sigurð á hverjum degi

Auglýsing

Nýjast

Teitur og Kara­batic í dag og fyrir tíu árum

Ellý: Ein­hver í Seðla­bankanum þarf rassskell

Rúnar filmaði fæðingu ó­­­kunnugrar konu

Viðkvæmnin „komin út fyrir öll eðlileg mörk“

Rúrik og Nathalia á landsleiknum

Næring+ nýr drykkur frá MS

Auglýsing