Feijoada-svartbaunakássa er einn af frægustu þjóðarréttum Brasilíu og kveikir svo sannarlega undir skammdeginu með glæsibrag. Hefðbundnar uppskriftir innihalda oftast grísakjöt eða nautakjöt og pylsur eins og chorizo eða farinheira, sem er portúgölsk, reykt grísapylsa. Þessi einfalda útgáfa hentar fyrir grænkera nær og fjær og þarfnast svo sannarlega engra dýraafurða til að væta góminn.

Einfaldast er að notast við forsoðnar baunir úr dós, en metnaðarfullir geta byrjað á að láta óverkaðar svartbaunirnar liggja í vatni yfir nótt og hægeldað svo samkvæmt upplýsingum á pakkningu. Vanalega er rétturinn borinn fram með hrísgrjónum.

Þessi kássa er bæði próteinrík út af baununum og stútfull af vítamínum út af grænmetinu. Svo er rétturinn eins og þétt faðmlag í matarformi. Uppskriftin miðast við tvo.

Svartbaunir eru stútfullar af vítamínum og nauðsynlegum næringarefnum.
Getty

Feijoada-svartbaunakássa

 • 1 laukur, skorinn í sneiðar
 • 2 hvítlauksgeirar, afhýddir og kramdir
 • 2 msk. olía
 • 1 msk. reykt paprika
 • 2 tsk. cummin-duft
 • 1 stór gulrót, skorin í teninga
 • 200 g sæt kartafla, afhýdd og skorin í teninga
 • 125 g kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
 • 200 ml grænmetissoð
 • 1 lárviðarlauf
 • 1x400 g dós af svartbaunum (ekki skola)
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Rifinn börkur af einni appelsínu

Notaðu stóra pönnu með háum hliðum eða steikarpott. Steiktu laukinn í olíu í 3-4 mínútur á miðlungshita, uns hann verður mjúkur. Bættu við kryddi og hvítlauk og steiktu í nokkrar sekúndur. Bættu við grænmeti og hrærðu uns kryddið þekur grænmetisbitana. Helltu soðinu út í ásamt lárviðarlaufinu og baununum (með safanum). Náðu upp suðu og leyfðu að malla í um 12 mínútur uns grænmetið er orðið mjúkt.

Bættu við vatni ef rétturinn byrjar að þorna upp.

Taktu pottinn af hitanum og hrærðu rifnum appelsínuberki út í. Fiskaðu lárviðarlaufið upp úr og berðu fram með hrísgrjónum.

Fyrir þá sem vilja bæta við pylsum er tilvalið að skera uppáhalds veganpylsuna sína í medalíur og steikja og strá yfir réttinn í lokin. Rétturinn er svo jafnvel enn betri daginn eftir.