Sigtryggur Karlsson lenti í því óskemmtilega atviki, sem virðast vera að færast í aukana, að hjóli hans var stolið. Það var síðan bútað niður í parta en um er að ræða hjól af gerðinni Mate sem seld eru í versluninni Ellingsen. Jón Birgir Valsson, verslunarstjóri Rafhjólaseturs Ellingsen, segir ekki algengt að stolin hjól endi í pörtum.
Nýtt sambærilegt hjól kostar um þrjú hundruð þúsund krónur og því um talsvert tjón að ræða fyrir Sigtrygg. Það var þó lán í óláni að Sigtryggur fékk hjólið til baka í pörtum frá „vesælum þjófum“ eins og hann orðar það í færslu í Facebook-hópnum Hjóladót Tapað, fundið eða stolið.
Sigtryggur fór með partana í Ellingsen, sem selur Mate rafhjólin, og þar tók rafhjóladeildin við þeim. Starfsmenn deildarinnar hófust þá handa við að setja saman hjólið, honum að endurgjaldslausu þar sem „ég væri búinn að hafa nóga armæðu af þessu máli.“
Jón Birgir segir Sigtrygg hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna þjófnaðarins og það vera sjálfsagða þjónustu að setja hjólið saman fyrir hann. Versluninni berist reglulega tilkynningar um þjófnaði á hjólum og starfsfólk er beðið um að hafa augun opin ef ske kynni að leitað sé eftir varahlutum í það eða komið með það til viðgerðar.
Svo eru sum hjólin sem sjást aldrei aftur
Aðspurður um það hvort að hjól sem stolið er séu flutt úr landi eða ekki segir Jón Birgir að miðað við það sem hann verði var við virðist það vera beggja blands.
„Svo eru sum hjólin sem sjást aldrei aftur, hversu sérstök sem þau eru. Svo eru önnur sem dúkka upp, í mismunandi ástandi en ég held að þetta sé nú alveg einsdæmi að hjólið hafi verið tekið svona kirfilega í sundur eins og þarna gerðist. Ég hef enga hugmynd um hver hugsunin á bak við það er,“ segir Jón Birgir.
„Svo setur maður spurningarmerki líka við það af hverju fólk er að stela þessum hjólum, Mate hjólin eru mjög áberandi hjól og það er mjög erfitt að fá varahluti erlendis frá. Þeir hjá Mate hafa viljað að þeir sem kaupi varahluti í Mate geri það í gegnum okkur. Við höfum tekið upp mjög stífar reglur um það hjá okkur að þeir sem eru að kaupa varahluti í bæði rafhlaupahjól og rafmagnsreiðhjólin, að framvísa ábyggilegum pappírum eins og nótu eða eitthvað þess háttar til að sýna fram á að þeir séu sannir eigendur. Þeir sem ásælast Mate hjólin lenda á vegg með það, að reyna að stela þessum hjólum – svo þurfa þeir að koma til okkar og þá er ákveðin þrándur í götu fyrir viðkomandi,“ segir hann að lokum.