Hún er heiti efnisskrár sem hinn margverðlaunaði kammerhópur Nordic Affect flytur í Skálholti á morgun, 4. ágúst, klukkan 16. Hún varpar ljósi á þátt kvenna í tónlistarsögunni og þar verður leikin barokktónlist á upprunahljóðfæri. Ókeypis er inn eins og á aðra viðburði sem tilheyra Sumartónleikum í Skálholti.

„Við ætlum meðal annars að spila tónlist sem var skrifuð fyrir gömbuhljóðfæri sem fundið var upp í Frakklandi fyrr á öldum af því að konur máttu ekki spila á fiðlu. Það þótti svo ókvenlegt að lyfta handleggjum svona hátt upp. Gömbuhljóðfærið var lausn á því vandamáli,“ útskýrir Halla Steinunn Stefánsdóttir, ein kvennanna í Nordic Affect. Hún segir þær stöllur setja á sig kynjagleraugun, það þýði ekkert annað.

„Í fyrra kom út greinargerð um verkefnaval sinfóníuhljómsveitarinnar í Kaupmannahöfn síðustu þrjú ár á undan. Af kammertónlist áttu karlar 99,9% verkanna og þegar kom að samtímatónlist voru konur komnar upp í 14,2%,“ lýsir Halla Steinunn og segir ekki duga að sofa á verðinum. „Rannsóknir sýna að konur komu að tónlist á ýmsa vegu gegnum aldirnar og við skoðum tónlistarflytjendur, tónskáld, útgefendur, nótnaritara og frú óþekkta.“

Dagskráin Hún verður endurtekin á sunnudaginn, 5. ágúst, klukkan 14. Sama dag, klukkan 16, flytur Nordic Affect efnisskrána Fjórar fabjúlöss, með nýjum verkum eftir staðartónskáld Sumartónleikanna, þær Báru Gísladóttur og Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, auk verka eftir víetnamska tónskáldið Luong Hue Trinh og Veronique Vöku frá Kanada.

Halla Steinunn er tengiliður milli tónskáldanna fjögurra. „Við í Nordic Effect pöntum stundum verk og það vildi svo skemmtilega til að ég var búin að vera í sambandi við Báru, Bergrúnu og Veronique Vöku. Svo komst ég í kynni við Luong Hue Trinh sem er eitt af tíu samtímatónskáldum frá Víetnam og bað hana um sólóverk. Þarna var komin fjölbreytt efnisskrá fyrir Skálholt,“ segir hún og tekur fram að tónskáldin fari ólíkar leiðir. „Innblásturinn bak við verk Vöku er íslensk landslagsljósmynd, Bergrún vinnur með ljós og þróar sérstaka nótnaskrift, verk Báru er húmorískt, fallegur trilluheimur þar og sólóverkið hennar Luong er unnið út frá ljóðinu og sögunni Móðir mín í kví kví. Ég fæ bæði að spinna þar og fara með orð.“