Það er vel hægt að nota hugmyndaflugið til að skreyta annars tilkomulitlar andlitsgrímur sem fólk setur fyrir vitin til að forðast smit. Til dæmis blóm eða fallegt tákn. Það vekur aðdáun og eftirtekt og blæs fleirum kjarki í brjóst að skapa flott grímutrend á viðsjárverðum tímum. Alls staðar eru boðin skýr: Bannað að knúsa og kyssa og óþarft að setja á sig kyssilegan varalit til að flikka upp á stælinn á tískuviðburðum.

Þessi sumarlega skvísa mætti vel búin á tískusýningu Chanel í París með blómum prýdda grímu, í bleikum sumarkjól með fölbláa Chanel-tösku við bleikan jakka.
Bandaríski tónlistarmaðurinn Todrick Hall mætti á Christian Cowan x Powerpuff Girls tískusýninguna í Hollywood með ofursvala svarta grímu fyrir vitum.
Kanadíski leikarinn Howie Mandel mætti með gasgrímu í Los Angeles.
Glæstur gestur á tískuvikunni í París með eyrnalokka, klædd röndóttri skyrtu við rauðar buxur og kápu og hvíta grímu í stíl með teiknuðum kínverskum táknum.
Þessi gestur mætti á tískusýningu Christian Dior með hefðbundna sjúkrahúsgrímu en hafði hana svolítið tætta til að gera hana enn meira töff.