Sérstæða er einstök innsetning sem var opinberuð um síðustu helgi á opnun Listahátíðar í Reykjavík. Verkið var hannað sérstaklega inn í rýmið fyrir hátíðina og er samstarfsverkefni fjögurra listamanna, þeirra Baldurs Snorrasonar, Michael Godden, Katerina Blahutová og Kristian Ross. Fréttablaðið tók þau þrjú síðarnefndu tali og fékk að fræðast aðeins um tilurð verksins.

Arkitektúr og list

Michael og Baldur hönnuðu verkið, Katerina gerði myndbandið og Kristian sá um hljóðhönnun. Baldur, Michael og Katerina eru öll arkitektar að mennt en Kristian er með doktorsgráðu í hljóðhönnun frá Háskólanum í Álaborg.

„Ég hef mestan áhuga á tengingu líkamans við form og rými, eitthvað sem mér finnst að arkitektastörfin ein og sér nái ekki yfir. Þannig að ég hef skapað list meðfram starfi mínu, hvort sem það eru innsetningar, leikverk og jú, í sumum tilfellum í formi arkitektúrs,“ segir Michael.

„Ég vinn oft með ákveðna hugmyndafræði í list á borð við núið og hið endalausa. Ég vinn svo hjá CCP hérna í Reykjavík og er hljóðhönnuður fyrir EVE Online hjá þeim,“ segir Kristian.

Katerina segir að hún hafi mikinn áhuga á að prufa sig áfram með ólík listform.

„Til dæmis eins og með ljós- og sviðshönnun og stafræna list,“ segir hún.

Ár í fæðingu

Michael segir að hugmyndavinnsla að baki verkinu hafi byrjað í janúar á síðasta ári.

„Upphaflega ætluðum við að byggja svið á Tjörninni. Við settum okkur í samband við Listahátíð og þeim leist vel á hugmyndina. Í kjölfarið hafði ég samband við Baldur og við héldum áfram með hugmyndavinnuna. Við höfðum því miður ekki nægt fjármagn til að byggja upphaflegu útgáfuna og því minnkuðum við verkið í sniði og færðum inn í Iðnó. Kristian og Katla slógust svo í hópinn í mars og við unnum hérna í sameiningu í tíu daga til að setja verkið upp,“ segir Michael.

„Ég er innilega þakklát að hafa verið treyst fyrir minni aðkomu að verkinu þótt verklýsingin hafi þróast og breyst þegar á leið. Upphaflega stóð til að ég gerði myndband fyrir verkið en kom svo líka að ljósahönnun sem kemur mjög vel út,“ segir Katerina.

Michael segir að hugmyndin hafi upphaflega verið sú að setja verkið upp á Tjörninni á sumarsólstöðum. Speglarnir umhverfis sviðið áttu svo að leggja enn frekari áherslu á einangrunina á sviðinu.

„Þegar það var ákveðið að setja verkið upp inni í Iðnó snerum við þessu algjörlega við. Speglarnir eru núna inni í verkinu þannig að þegar það er farið inn í það þá upplifir maður nokkurs konar einangrun og myrkur, eitthvað sem er lítið um svona um sumar. Sjálfur hef ég farið inn í verkið tvisvar sinnum síðan við opnuðum en ég finn smá að ég sakna þess og vil fara aftur og aftur. Það er eitthvað andrúmsloft þarna, samspil hljóðs, lita og ljóss? Kannski er það myrkrið? Það er erfitt að segja,“ segir Michael.

Gott samstarf

Kristian segir að samstarfið hafi gengið vel og þau öll borið traust til hvert annars í listsköpuninni.

„Við hjálpuðumst svo að við að þróa verkið. Ég hafði hundrað prósent trú á og traust til Katerinu, Michael og Baldurs og vissi að þau myndu gera sitt vel. Ég trúi því að þessi góða samvinna hafi spilað lykilhlutverk í sköpun verksins. Ein manneskja hefði ekki getað náð sömu útkomu en hæfni okkar allra til samans gerði verkið að veruleika,“ segir Kristian.

Verkið Sérstæða er til sýnis til 17. júní í Iðnó við Vonarstræti 3.

Hægt er að berja verkið augum í Iðnó til loka miðvikudagsins 17. júní.