Stofnun Árna Magnús­sonar í ís­lenskum fræðum hefur gefið út tvö fyrstu heftin í nýrri rit­röð sem nefnist Fornar biblíu­þýðingar. Henni er ætlað að koma á fram­færi gömlum ís­lenskum biblíu­textum sem hafa ekki birst í heildar­út­gáfum Biblíunnar á ís­lensku. Þessi fyrstu hefti geyma Jú­dítar­bók og Makka­bea­bækur. Svan­hildur Óskars­dóttir og Karl Óskar Ólafs­son sáu um út­gáfuna.

„Það má finna frá ýmsum öldum texta sem hafa aldrei komist inn í Biblíuna en eru mjög skemmti­legar heimildir, um þýðingar­starf, mál­sögu, smekk og það hvernig tungu­málið hefur þróast,“ segir Svan­hildur. „Í þessum fyrstu heftum endur­speglast vel hversu ó­líka texta er um að ræða. Annars vegar erum við með þýðingu á Jú­dítar­bók sem er frá því um 1300 og hins vegar þýðingu á Makka­bea­bókum frá 16. öld.“

Jú­dít í lista­sögunni

Um Jú­dítar­bók segir Svan­hildur: „Hún er eitt af Apó­krýfu­ritum Gamla testa­mentisins. Þetta er saga af af­skap­lega fal­legri konu, Jú­dít, sem er ekkja. Hún er gyðingur og frelsar þjóð sína úr um­sátri sem Nebúka­dnesar, sem sagður er konungur Assýríu­manna í textanum, stendur fyrir á­samt hers­höfðingja sínum Hóló­fer­nes. Jú­dít tælir Hóló­fer­nes og þegar hann er sofnaður í rekkju sinni þá heggur hún af honum höfuðið.

Þessi saga er mjög fræg í lista­sögunni og til eru margar myndir af því þegar Jú­dít stendur með höfuð Hóló­fer­nesar eða er að sarga það af honum. Makka­bearnir er einnig mjög blóðug saga og fjallar um upp­reisn gyðinga sem var leidd af Júdasi Makka­beusi og bræðrum hans. Upp­reisnin leiðir til þess að gyðingar ná aftur völdum yfir musterinu í Jerúsalem og stofna sitt eigið ríki á annarri öld fyrir Krist.“

Annað stíl­við­mið

Um ís­lensku þýðingarnar segir Svan­hildur: „Út frá bók­mennta­legu sjónar­miði er Jú­dítar­bók mjög form­fögur. Hún er dá­lítið eins og þjóð­saga, hefur skýra byggingu, aðal­per­sónur eru til­tölu­lega fáar og leika af­mörkuð hlut­verk. Þýðingin er á máli sem er keim­líkt því sem er á forn­sögum okkar og af­skap­lega fal­leg á köflum. Þýðingin á Makka­beunum var gerð á 16. öld, rétt eftir siða­skiptin og gefur okkur mynd af því sem þýðandinn, sem kannski var Gísli Jóns­son biskup í Skál­holti, taldi vera góðan stíl. Þarna er annað stíl­við­mið en við höfum núna.

Við erum mótuð af mál­hreinsunar­stefnunni á 18. og 19. öld og það sem okkur finnst vera fagur stíll og gott mál endur­speglast ekki í þessari þýðingu. Við fyrstu sýn orkar þýðingin sem mjög dönsku­skotin og á ein­kenni­legu máli. Þegar farið er að skoða textann betur þá sér maður að þarna er mikill kraftur og skemmti­legt tungu­mál þótt orð­færið sé okkur framandi núna að ýmsu leyti.“ Spurð hversu mörg ritin í rit­röðinni muni verða segir Svan­hildur að til að byrja með sjái hún fyrir sér allt að tíu heftum.