Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur gefið út tvö fyrstu heftin í nýrri ritröð sem nefnist Fornar biblíuþýðingar. Henni er ætlað að koma á framfæri gömlum íslenskum biblíutextum sem hafa ekki birst í heildarútgáfum Biblíunnar á íslensku. Þessi fyrstu hefti geyma Júdítarbók og Makkabeabækur. Svanhildur Óskarsdóttir og Karl Óskar Ólafsson sáu um útgáfuna.
„Það má finna frá ýmsum öldum texta sem hafa aldrei komist inn í Biblíuna en eru mjög skemmtilegar heimildir, um þýðingarstarf, málsögu, smekk og það hvernig tungumálið hefur þróast,“ segir Svanhildur. „Í þessum fyrstu heftum endurspeglast vel hversu ólíka texta er um að ræða. Annars vegar erum við með þýðingu á Júdítarbók sem er frá því um 1300 og hins vegar þýðingu á Makkabeabókum frá 16. öld.“
Júdít í listasögunni
Um Júdítarbók segir Svanhildur: „Hún er eitt af Apókrýfuritum Gamla testamentisins. Þetta er saga af afskaplega fallegri konu, Júdít, sem er ekkja. Hún er gyðingur og frelsar þjóð sína úr umsátri sem Nebúkadnesar, sem sagður er konungur Assýríumanna í textanum, stendur fyrir ásamt hershöfðingja sínum Hólófernes. Júdít tælir Hólófernes og þegar hann er sofnaður í rekkju sinni þá heggur hún af honum höfuðið.
Þessi saga er mjög fræg í listasögunni og til eru margar myndir af því þegar Júdít stendur með höfuð Hólófernesar eða er að sarga það af honum. Makkabearnir er einnig mjög blóðug saga og fjallar um uppreisn gyðinga sem var leidd af Júdasi Makkabeusi og bræðrum hans. Uppreisnin leiðir til þess að gyðingar ná aftur völdum yfir musterinu í Jerúsalem og stofna sitt eigið ríki á annarri öld fyrir Krist.“
Annað stílviðmið
Um íslensku þýðingarnar segir Svanhildur: „Út frá bókmenntalegu sjónarmiði er Júdítarbók mjög formfögur. Hún er dálítið eins og þjóðsaga, hefur skýra byggingu, aðalpersónur eru tiltölulega fáar og leika afmörkuð hlutverk. Þýðingin er á máli sem er keimlíkt því sem er á fornsögum okkar og afskaplega falleg á köflum. Þýðingin á Makkabeunum var gerð á 16. öld, rétt eftir siðaskiptin og gefur okkur mynd af því sem þýðandinn, sem kannski var Gísli Jónsson biskup í Skálholti, taldi vera góðan stíl. Þarna er annað stílviðmið en við höfum núna.
Við erum mótuð af málhreinsunarstefnunni á 18. og 19. öld og það sem okkur finnst vera fagur stíll og gott mál endurspeglast ekki í þessari þýðingu. Við fyrstu sýn orkar þýðingin sem mjög dönskuskotin og á einkennilegu máli. Þegar farið er að skoða textann betur þá sér maður að þarna er mikill kraftur og skemmtilegt tungumál þótt orðfærið sé okkur framandi núna að ýmsu leyti.“ Spurð hversu mörg ritin í ritröðinni muni verða segir Svanhildur að til að byrja með sjái hún fyrir sér allt að tíu heftum.