Niðurstöður óformlegrar könnunar á samfélagsmiðlum benda til þess að sá fatnaður sem helst kemur upp um þjóðerni Íslendinga í útlöndum sé svartur klæðnaður í bland við flíkur frá íslenska útivistarfyrirtækinu 66°Norður.
Landsmenn kannast við tilfinninguna sem skapast á ferðalögum erlendis þegar Íslendingar mæta óvænt öðrum Íslendingum, ef til vill þar sem mannmergð er mikil eða utan helstu ferðamannastaða.
Þetta skapar gjarnan undarlegt andrúmsloft og sér í lagi í aðdraganda þess sem ýmist er algjör hundsun eða eitt hressilegt: „Góðan daginn, eruð þið Íslendingar?“
Það er fleira en tungumálið sem einkennir Íslendinga á ferð, og samkvæmt óformlegri könnun á Twitter, þar sem tugir svara bárust, mynduðust ákveðnar línur í þeim klæðnaði sem Íslendingar telja einkenna samlanda sína á ferðalagi erlendis.
