Úkraínski kvikmyndagerðarmaðurinn Sergei Loznitsa verður gestur kvikmyndahátíðarinnar RIFF í lok september. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum RIFF.
Loznitsa vann til verðlauna á síðustu Cannes-hátíð og mynd hans er framlag Úkraínu til Óskarsverðlauna. „Hann mun halda málþing um stríð og falsfréttir þegar hann verður á hátíðinni og mun sýna nýjustu myndirnar sínar og svara spurningum um þær,“ segir í tilkynningunni.
Donbass, nýjasta myndin hans, verður opnunarmynd RIFF hátíðarinnar í ár.
Í umsögn um manninn segir meðal annars: „Myndir Loznitsa eru áhrifamikil og róttæk listaverk, sem fela oftar en ekki í sér harða en þó launfyndna ádeilu á nútímasamfélag, og bakgrunnur hans í kvikmyndatöku skilar sér í meistaralegu myndmáli. Það má með sanni segja að Sergei Loznitsa sé einhver áhugaverðasti kvikmyndagerðarmaður samtímans.“
Athugasemdir