„Já, það eru til raunverulegir djöflar meðal okkar. Biblían segir að það séu til djöflar og raunveruleikinn er sá að þeir eru til. Stundum er hægt að skýra þá vísindalega en stundum eru þeir raunverulegir,“ segir aðventistapresturinn Louis Torres sem sótti Ísland heim á dögunum.

„Þegar ég gerðist prestur fór ég að rannsaka þetta og hitta fólk sem hefur verið andsetið. Okkur hefur tekist að frelsa fólk frá djöflum sem hafa heltekið það,“ heldur Torres áfram en hann hefur fjallað mikið um fyrirbærið í gegnum tíðina. Meðal annars í bók sinni Demons or Angels frá 2013.

Torres segir hættuna við særingar helst fólgna í því að andsetnir hafi oft ákveðin sjúkdómseinkenni og erfitt geti verið að greina á milli. „Þetta eru aðstæður þar sem fólk getur virst andsetið þegar ástæðurnar eru í raun taugafræðilegar.

Og því miður er allt of margt fólk tilbúið til þess að finna djöfla í öllu. Það geta verið hræðileg mistök að meta fólk andsetið sem er það ekki og það getur farið mjög illa með fólk að reyna að frelsa það frá illu sem ekkert er.“

Torres hafði sjálfur áður sína djöfla að draga. Hann fæddist í Púertó Ríkó en ólst upp í fátækrahverfinu Brooklyn í New York þar sem hann gekk í glæpagengi. Þá var hann um árabil bassaleikari frumrokkssveitarinnar Bill Haley and the Comets sem þekktust er fyrir lagið Rock Around the Clock.

Hann sneri síðan baki við sjálfhverfu og innantómu frægðarlífinu þegar hann fann Guð og gerðist aðventisti.

Púkinn Pazuzu í The Exorcist er ekki úr svo mjög lausu lofti gripinn ef marka má trú Torrres.