Það var lítill klassi yfir leik Serenu Williams í úrslitaleik Opna bandaríska meistaramótsins í tennis um síðustu helgi. Williams, sem margir telja einn besta íþróttamann sögunnar enda búin að vina 23 risatitla, tapaði þá fyrir Japananum Naomi Osaka nokkuð verðskuldað en hegðun hennar í leiknum sjálfum hefur valdið ofboðslegu fjaðrafoki.

Williams braut spaða í leiknum, sakaði dómarann, Carlos Ramos, um lygar, karlrembu og þjófnað og lét almennt öllum illum látum. Hún sýndi enga meistaratakta og tapaði fyrir betri tennisleikara þennan dag. Alls námu sektirnar sem Ramos henti á hana 17 þúsund dollurum.

En þótt Serena hafi tapað á vellinum var hún ekki klár í að tapa eftirleiknum líka. Hún hefur haldið áfram baráttu sinni gegn karlrembu í tennisheiminum og hefur talað um að karlmaður af hennar stjörnugráðu hefði aldrei fengið svona dóma á sig.

Breska blaðið The Times sagði frá því í vikunni að dómarar í tennis ætluðu að taka höndum saman og sniðganga leiki Williams.

Nafnlaus heimildarmaður sem The Times vitnar í segir að dómarar séu ekki sáttir við skort á stuðningi frá Tennissambandi Bandaríkjanna og að Ramos sé hent fyrir úlfana eingöngu fyrir að sinna starfi sínu. Allar ákvarðanir hans hafi verið réttar og samkvæmt laganna bókstaf og hann sé þannig dómari. Þeir eru jú misjafnir eins og leikmennirnir. Ein tillagan er að sniðganga alla leiki Williams þar til hún biður Ramos afsökunar.

Trúlega mun fyrr frjósa í helvíti.

Eftir að Ramos hafði dæmt víti á hana fyrir að vera þjálfuð frá áhorfendabekkjunum, en slíkt er stranglega bannað, sakaði Williams hann um lygar. Flestir eru á því að dómur Ramos hafi verið réttur.

Því næst braut hún spaðann og víti var eðlilega rétt ákvörðun hjá Portúgalanum. Þriðja brot hennar var að kalla Ramos þjóf og vera með dónaskap. Fyrir það fékk hún víti á sig og Osaka fékk stig í kjölfarið sem tryggði í raun sigur hennar. Ramos hefur í gegnum dómaraferil sinn verið strangur gagnvart öllum dónaskap. Hann mun dæma næst í Davies-bikarnum milli Bandaríkjanna og Króatíu.

Williams er þó ekki af baki dottin og ætlar að berjast áfram gegn karlrembunni því henni finnst að hvítir menn í tennis fái að gera hluti sem hún fengi aldrei að komast upp með.

Og um það snýst málið. Að konur fái sömu meðferð.

Billy Jean King, goðsögn í tennisheiminum og einn af stofnendum tennissambands kvenna, WTA, sagðist á Twitter-síðu sinni styðja Williams. Það sé fáránlegt að refsa konu fyrir að vera í uppnámi og segja hana hysteríska en segja karlmenn hreinskilna þegar þeir hegða sér á sama hátt.

Tennisleikarnir Andy Roddick og James Blake hafa einnig stigið fram til stuðnings Williams. WTA sagði í yfirlýsingu að þolinmæði gagnvart karlmönnum væri mun meiri og kallaði eftir aðgerðum.

Dómarinn Carlos Ramos sagði í örviðtali við Tribuna Expresso í Portúgal, að sér væri slétt sama – svona miðað við aðstæður. „Þetta er viðkvæmt mál en þetta er ekki klippt og skorið. Þannig er það aldrei. En það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér.“

Blaðið segir að nokkrir leikmenn og vinir hafi sent honum stuðningskveðjur. WTA hefur kallað eftir jafnri meðferð og að þjálfun á meðan á leik stendur verði leyfð.

Hvort karlrembunni í tennisheiminum verði útrýmt er erfitt að spá fyrir um. Það gengur hægt í fótbolta til dæmis og íþróttum almennt. Trúlega er jafnréttið mest í MMA. En flestir eru sammála um að það þurfi að setja skýrari reglur um þjálfun frá hliðarlínunni. Þar hefur Serena eitthvað til síns máls. Trúlega mun málflutningur hennar verða til þess að reglunum verði breytt.

Eitt er víst að þó að Serena hafi tapað úrslitaleiknum þá vinnur hún sjálfan tennisleikinn þegar öll kurl eru komin til grafar. Hún hefur sýnt það áður á ferlinum.