Kvikmyndir

Nobody

★★★

Leikstjórn: Ilya Naishuller

Aðalhlutverk: Bob Odenkirk, Aleksey Serebryakov, Connie Nielsen, Christopher Lloyd

Bob Odenkirk stimplaði sig inn með því að raðstela senunni í sjónvarpsþáttunum Breaking Bad, sem slímugi lögmaðurinn Saul Goodman og hefur síðan fest sig rækilega í sessi með sömu persónu í jafnvel enn betri þáttum, Better Call Saul. Hann er þó tæpast alveg fyrsti leikarinn sem manni dettur í hug fyrir yfirkeyrðan ofbeldishasar eins og þá kærkomnu himnasendingu Nobody.

Dagfarsprúðlegir leikarar sem hafa öðlast ákveðinn virðuleika, jafnvel dálítið smáborgaralegan, hafa þó átt nokkuð greiðan aðgang að byssuhasarmyndum eftir að Liam Neeson ruddi brautina með yfirburðaverkinu Taken 2008.


Þrátt fyrir það hefur enginn alvöru leikari hrist af sér áru hins venjulega manns og sprungið jafn glæsilega út sem fjölhæf drápsmaskína, jafnvíg á byssur sem berar hendur, og Odenkirk, í þessari fyrstu bíómynd sem stendur eða fellur með honum í aðalhlutverki.

Betri en Bruce Willis

Hasarmynd af þessu tagi hlýtur að teljast súrrealískur valkostur fyrir leikara sem hefur stigið sjónvarpsölduna með slíkum glæsibrag en um leið sýnir Nobody svo ekki verður um villst að Odenkirk smellpassar í harðhausadeildina þótt vöðvamassinn sé langt undir Stallone/Schwarzenegger-viðmiðunum.

Einmitt fyrst og fremst þess vegna gerir hann herslumuninn sem lyftir Nobody langt upp fyrir meðallagið og blæs um leið ferskum anda í staðnaðar hasarklisjurnar sem þurfa einmitt á reglulegri súrefnisgjöf að halda vegna þess að þær eru það sem þær eru og geta ekki annað.


Hefði augljósari kostur eins og til dæmis Bruce Willis verið fenginn til verksins hefði þetta tilbrigði við John Wick varla gengið upp hjá rússneska leikstjóranum Ilya Naishuller og handritshöfundinum Derek Kolstad, sem svo merkilega vill til að er hugmyndafræðingurinn að baki John Wick-þríleiknum með Keanu Reeves.

Dýrið gengur laust

Þessir kappar eru hvorki að reyna eða þykjast vera að finna upp aksjónhjólið og sagan er þúsundasta tilbrigðið við margleikið stef. Odenkirk leikur Hutch Mansell, miðaldra, dauflegan og undirokaðan bókara í fjölskyldufyrirtæki tengdaföður síns.

Ekki er annað að sjá en að hann og vísitölufjölskyldan hans öll sé að drepast úr almennum leiðindum og svo slæmt er ástandið og dugleysið orðið að eiginkonan, hún Becca, er búin að reisa Berlínarmúr úr púðum á milli þeirra í hjónarúminu.

Þegar óheppileg atvik og óþægilegar tilviljanir verða til þess að harðsvíraðir, rússneskir mafíósar ógna öryggi Hutch og fjölskyldu, kemur óvænt í ljós að hann hefur allt annan og miklu hættulegri mann að geyma. Niðurbældur atvinnumorðinginn sem í honum bærðist hrekkur í gang og Rússarnir eiga heldur betur von á óvæntri óánægju.

Stíliseraðar limlestingar

Odenkirk er helsta leynivopn myndarinnar, en þar fyrir utan liggur styrkur Nobody fyrst og fremst í því að hún reynir ekki að vera neitt annað en það sem hún er og tekur sig núll alvarlega. Þess vegna getur allt gerst og gerist bara eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Bob Odenkirk, betur þekktur sem lögmaðurinn Saul, lyftir heilalausum hasarnum á hærra plan í Nobody.

Þá spillir ekki fyrir að myndin er ofboðslega vel stíliseruð og í umhverfinu bergmálar meðal annars dimm og regnvot film noir stemming í bland við evrópskt kitch sem toppar þegar snarsíkópatískur aðalskúrkurinn brestur í tilgerðarlegan Júróvisjónsöng í aðdraganda subbulegs blóðbaðs í næturklúbbnum sínum. Eitthvað ómótstæðilegt við þessa dellu.

Bardagaatriðin með tilheyrandi blóðsúthellingum, sprengingum, beinbrotum og kúlnaregni eru líka brjálæðislega töff og skrúfuð alveg upp á Tomma og Jenna stigið án þess þó að verða svo veruleikafirrt að þau leki út í skrípó. Þetta er ljótt ofbeldi sem hefur afleiðingar.

Harðari en Reacher

Fyrir innvígða og innmúraða er Nobody líklega best lýst sem Reacher-myndinni sem við höfum ekki fengið frá ræfilstuskunni honum Tom Cruise, vegna þess að þegar Odenkirk hristir af sér grámyglulegan úthverfabókarann sem neyðist til þess að virkja sitt náttúrulega drápseðli verður hann gersamlega og dásamlega úrræðagóður og ósigrandi. Eins og Reacher.


Nobody er rétt rúmlega 90 mínútna ofbeldisorgía og er svo skemmtileg sem slík að hún virkar miklu styttri. Kynningin á hversdagslegu og niðurdrepandi vísitölufjölskyldulífi Hutch er afgreidd skýrt og skorinort og síðan byrjar gjörsamlega heiladautt ballið sem í raun gengur aðeins út á það eitt að þeyta Odenkirk á milli sturlað ofbeldisfullra aðstæðna þar sem vandlega er séð til þess að hann verði aldrei uppiskroppa með vonda menn til þess að drepa og limlesta.


Niðurstaða: Allt hefur þetta verið gert milljón sinnum áður og frá Nobody er ekkert nýtt að frétta annað en það að þetta hefur ekki verið gert jafn skemmtilega og með slíkum glæsibrag lengi og þar munar mest um Bob Odenkirk, fínan húmor og gott auga og næman skilning leikstjórans á töffi og stíliseraðri stemningu.