Þessi nýja skáld­saga gerist í nú­tímanum. Titillinn kann að gefa til kynna að hér sé á ferð glæpa­saga. Spurð um það segir Ingi­björg: „Þetta er ekki hefð­bundin glæpa­saga, þarna er verið að fjalla um hugsan­legan glæp. Þetta er miklu frekar gaman­saga með harm­rænu í­vafi.“

Grun­sam­legur dauði

Spurð um sögu­þráðinn segir hún: „Bókin hefst á því að verið er að taka fyrstu skóflu­stungu að nýju kísil­veri við kaup­staðinn Sel­vík sem er ekki langt frá höfuð­borginni. En þar hefur verið erfitt á­stand, at­vinnu­leysi og fólks­flótti eftir að aðal­­at­vinnu­rekandinn hvarf á brott með allt sitt hafur­task. Á þeim fimm­tán árum sem liðin eru hefur í­búunum fækkað um helming.

Skyndi­lega dúkkar upp bjarg­vættur, amerískur auð­kýfingur sem ætlar að reisa kísil­verk­smiðju við Sel­vík. En áður en af því verður þurfa öll leyfi að liggja fyrir og meta þarf um­hverfis­þætti eins og jarð­skjálfta­hættu og þess háttar. Stað­setning kísil­versins er á einu virkasta jarð­skjálfta­svæði landsins. Leyfi fæst og allt lifnar við, brott­fluttir snúa heim og fram­tíð byggðar­lagsins er borgið.

Jarð­vísinda­konan Agnes, sem fengin var til þess að gera jarð­skjálfta­mat á svæðinu, finnst látin í bíl sínum í djúpu gljúfri uppi á heiðinni nokkrum dögum áður en taka á fyrstu skóflu­stunguna að kísil­verinu.
Þetta er saga æsku­vin­kvennanna Margrétar og Sig­ríðar sem komnar eru vel yfir miðjan aldur. Þeim finnst strax dauði jarð­vísinda­konunnar grun­sam­legur og fara á stúfana og komast að því að ekki er allt sem sýnist. En munu þær segja frá? Þær vita að ef þær gera það verður hætt við byggingu kísil­versins og allt fer í sama ó­standið og áður. Fram­tíðar­heill fjöl­skyldna og vina verður veru­lega ógnað. Hvað er verra en að rústa lífi sinna nánustu?“

Rétt­vísi kvenna

Spurð hvort greina megi pólitískan tón í bókinni segir Ingi­björg: „Á yfir­borðinu virðist þetta vera saka­mála­saga í léttum dúr en undir niðri er þetta há­alvar­leg sam­fé­lags­gagn­rýni þar sem pólitískir og efna­hags­legir hags­munir svífast einskis. Þetta er saga um líf í landi, um átök sem felast í eftir­farandi spurningum: Hafa al­manna­varnir eða aðrir eftir­lits­aðilar eitt­hvert á­kvörðunar­vald þegar kemur að því að vara al­menning við að­steðjandi hættu ef það stríðir gegn æðri hags­munum, eins og valdi og gróða? Hvers má sín rétt­vísi tveggja roskinna kvenna gegn hags­munum heils byggðar­lags, jafn­vel allrar þjóðarinnar? Geta vísinda­menn yfir­leitt gert „hlut­laust“ mat á um­hverfis­þáttum eins og ham­fara­hættum? Munu ekki þeir sem réðu þá til verksins alltaf hafa á­hrif á niður­stöðuna?