Japanski sendiherrann Ryotaro Suzuki tók við stöðu sinni á Íslandi fyrir rétt rúmum mánuði og er í krafti glaðlegra og einlægra Twitter-færsla nú þegar orðinn einhver þekktasti sendiherra erlends ríkis hér á landi.

Hann er hins vegar ekki fyrsti sendiherrann sem fangar athygli og huga fjölmargra Íslendinga með því að koma til dyranna eins og hann er klæddur og sýna raunverulegan áhuga á landi og þjóð.

Þannig gerðu sendifulltrúar Rússlands og Bandaríkjanna, þeir Júrí Aleksandrovitsj Reshetov og Luis E. Arreaga, báðir mikla lukku en líklega er ekki á neinn hallað þótt Júrí teljist fremstur meðal jafningja í þessum efnum en hann hélt sterku sambandi við Ísland og Íslendinga til dauðadags.

Júrí úr neðra

Júrí Reshetov var blaðafulltrúi við sendiráð Sovétríkjanna á Íslandi 1964-1966 og kom aftur hingað til starfa 1992 og þá sem sendiherra Rússlands og gegndi starfinu til ársins 1998.

Það segir sína sögu um vinsældir Júrí á Íslandi að hann var sæmdur stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu og var heiðursfélagi í MÍR, Menningartengslum Íslands og Rússlands, og árið 1996 komu endurminningar hans út í bókinni Júrí úr neðra, sem hann skráði með Eyvindi Erlendssyni.

„Sendiherra Rússa á Íslandi kemur ekki fyrir sjónir eins og við ímyndum okkur dæmigerðan diplomat. Miklu fremur minnir hann á fastmæltan íslenskan bónda, dálítið svona vinnulegan og veðurbarinn, einbeittan á svip, gætinn í orðum. Þeirra hluta vegna gæti hann allt eins verið hreppstjóri norður í Húnavatnssýslu.“

Þessi lýsing Erlendar Jónssonar á sendiherranum í umfjöllun um bókina í Morgunblaðinu gefur býsna skýra mynd af því hvernig Júrí birtist Íslendingum. Þá hafði hann íslenskuna fullkomlega á valdi sínu en slíkt er alltaf fallið til vinsælda hér á landi. Auk þess sem hann sýndi íslenskum þjóðmálum og menningu mikinn og einlægan áhuga og á síðustu árum sínum vann hann að þýðingum verka íslenskra höfunda á rússnesku.

Júrí átti hug og hjörtu fjölmargra Íslendinga og sagðist í viðtali við DV stundum líta á sig sem hálfgerðan Íslending.
Mynd/DV

Júrí lést á 68. aldursári 6. maí 2003 og Ívar H. Jónsson, félagi hans í MÍR, kvaddi hann meðal annars með þessum orðum í minningargrein í Morgunblaðinu: „Hann eignaðist marga kunningja og vini á Íslandi, enda maður skemmtilegur og spaugsamur, laus við alla fordild og óþarfa formfestu, alþýðlegur í besta lagi og óhræddur við að tileinka sér þjóðlega íslenska siði. Af þessum sökum naut hann vinsælda meðal almennings en var jafnframt virtur vel af þeim sem áttu við hann samskipti í embættisnafni.“

Júrí lýsti sér sjálfur sem hálfgerðum Íslendingi í viðtali við DV 1996 í tilefni af útkomu bókarinnar Júrí í neðra. „Þegar mér líður ekki vel heima þá fer ég út í bæ og þá kemur fólk og byrjar að tala við mig. Íslendingar hafa skiptar skoðanir um Rússland og ég er sannfærður um að Rússagrýlan er ekki dauð. Ég sagði einu sinni að mér hefði að minnsta kosti ekki verið boðið að vera við útförina. En Íslendingar hafa aldrei brugðist mér. Þeir hafa alltaf verið vingjarnlegir og þegar ég fer í sund kemur fólk og spjallar. Þá lít ég á sjálfan mig sem hálfgerðan Íslending.

Gleðiganga uppvakninganna

Barack Obama Bandaríkjaforseti skipaði Luis E. Arreaga sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi 2010 og hann gegndi embættinu til 2013 og kvaddi með hjartnæmri kveðju á bloggsíðu sinni enda enginn Twitter kominn til sögunnar þá.

Sendiherrann reifaði sterk vináttutengsl Bandaríkjanna og Íslands og sagðist hafa orðið fyrir flóðbylgju minninga um þrjú einstök ár á Íslandi þegar hann hélt til Keflavíkur á leið sinni frá landinu og úr embætti. Íslendingum lýsti hann sem göfugri þjóð sem hafi verið forréttindi að fá að kynnast og þakkaði Íslendingum fyrir að hafa leyft sér að kynnast hinni einstöku íslensku þjóðarsál.

Starfsfólk bandaríska sendiráðsins brá á leik með Luis Arreaga í broddi fylkingar og vildi ná sambandi við íslenska uppvakninga. Fréttablaðið/Stefán

Arreaga er doktor í hagfræði og kom hingað hokinn af reynslu úr utanríkisþjónustunni þar sem hann hafði meðal annars starfað í sendiráðum Bandaríkjanna í Panama, Kanada og á Spáni auk starfa í Perú, El Salvador og Hondúras.

Arreaga tók nokkuð virkan þátt í íslensku þjóðlífi og tók til dæmis þátt í gleðigöngu Hinsegin daga í Reykjavík öll þrjú árin og mörgum er minnisstætt þegar hann fór fyrir hópi uppvakninga á Hlemmi í ársbyrjun 2013.

Twitter-stjarnan

Ryotaro Suzuki er nýr sendiherra Japans á Íslandi og er þegar orðinn aðalstjarnan á diplómatahimninum yfir Íslandi sem er áttunda staða hans á erlendri grundu eftir um 40 ár í japönsku utanríkisþjónustunni.

Suzuki Ryotaro er nýjasta stjarnan í erlendri utanríkisþjónustu.8Fréttablaðið/Ernir
Fréttablaðið/Ernir

Segja má að með sínum fyrstu skrefum í embætti feti hann svipaða slóð og Júrí heitinn. Hann er þegar byrjaður að læra íslensku og í vinsælum Twitter-færslum sýnir hann svo ekki verður um villst að hann er í meira lagi áhugasamur um land og þjóð.

Þótt Suzuki sé nýkominn vonast hann til þess að fá að gegna embætti hér sem lengst. „Allir diplómatar verða auðvitað að koma og fara. Sendiherra Bretlands, sem er að vísu á förum í ágúst, var hérna í fimm ár.

Ef ég gæti verið hérna í fimm ár yrði ég mjög ánægður. Ef ég næ því get ég líka farið að tala íslensku í viðtölum,“ sagði Ryotaro Suzuki nýlega í viðtali við Fréttablaðið.

Hinir ósáttu

Lífsháski á Íslandi

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, lét af störfum í janúar á þessu ári og var orðinn heldur umdeildur áður en hann lauk störfum. Ekki síst fyrir fréttir af því að hann vildi fá vopnaðan lífvörð þar sem hann taldi sig í lífshættu hér á landi.

Þá sagði fréttastöðin CBS sendiherrann ofsóknarbrjálaðan og að hann væri sannfærður um að fjöldi starfsfólks sendiráðsins á Íslandi væri hluti af djúpríkinu svokallaða.

Hermt er að Jeffrey Ross Gunter hafi talið lífi sínu ógnað á Íslandi. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Donald Trump skipaði Gunter í embættið í júlí 2019 en hann er menntaður húðsjúkdómafræðingur og skurðlæknir og hafði stutt framboð forsetans fjárhagslega. Sendiherrann þakkaði síðan forsetanum fyrir „ótrúlegt tækifæri“ í kveðjuávarpi á Facebook-síðu sendiráðsins.

CBS hélt því hins vegar einnig fram að Gunter hefði einhverju sinni þvertekið fyrir að snúa aftur til Íslands eftir frí í Kaliforníu þannig að Mike Pompeo, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefði endað með að skipa honum að snúa aftur til starfa.

Fýla út í fjölmiðla

Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, hefur ekki síst vakið athygli hér á landi fyrir núning við fjölmiðla.

Pólski sendiherrann Gerard Pokruszynski hefur staðið í skaki við íslenska fjölmiðla.

Hann sendi meðal annars skrifstofum forseta og forsætisráðherra kvörtunarbréf vegna fréttar Stundarinnar um sjálfstæðisgönguna í Varsjá í nóvember 2018 og krafðist þess að miðillinn bæði þjóð hans afsökunar á því að hafa spyrt föðurlandsást við fasisma og nasisma.

Fréttablaðið og Stundin fengu síðan bágt fyrir hjá sendiherranum í kjölfar frétta um að hann hefði farið fram á að lögregla fjarlægði borða með áletruninni: „Herra sendiherra, pólskar konur eru í hættu. Hvar ert þú?“ sem nágrannakona hans hafði sett upp fyrir framan sendiherrabústaðinn. Fjölmiðlana sagði hann éta gagnrýnislaust upp lygar pólskra aðgerðasinna hér á landi.