Viðburðafyrirtækið Sena Live hefur aflýst uppistandssýningu bandaríska grínistans T.J. Miller.

„Við unnum okkar heimavinnu ekki nógu vel og biðjumst afsökunar á því,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Grínistinn stefnir á að fara í Evróputúr á næsta ári með nýjustu uppistandssýningu sína og ætlaði hann að koma við á Íslandi og halda sýningu í Háskólabíó þann 7. maí árið 2022.

Sena Live hefur nú aflýst sýningu hans og beðist afsökunar á því að hafa ekki unnið heimavinnu sína en Fréttablaðið greindi frá því í morgun að T.J. Miller væri umdeildur grínisti í ljósi ásakana um kynferðisofbeldi í kjölfar fyrstu MeToo bylgjunnar árið 2017.

Grínistinn hefur verið sakaður um brjóta gegn og áreita konur, með annars með því að kyrkja fyrrverandi kærustu sína og kýla hana í andlitið meðan þau stunduðu kynmök. Miller neitaði sök og sakaði konuna, sem ræddi við blaðamann Daily Beast, um að nýta sér MeToo bylgjuna til að sverta mannorð sitt. Sama dag og fréttin birtist tók Comedy Central þáttinn hans, The Gorburger show, úr loftinu.

Miller hefur tvívegis verið handtekinn, árið 2016 fyrir líkamsárás og árið 2018 fyrir að hafa hrópað til lögreglu að kona sem var um borð í lest Amtrak frá Washington D.C. til New York, væri með sprengju í handtösku sinni.