Útgáfutónleikar Karítasar fyrir plötuna Eternity fara fram á Kex hostel í kvöld. Karítas byggir textana á eigin reynslu. Hún er spennt að fá loks tækifæri til að spila nú fyrir fólk eftir langan tíma.

Í kvöld fara fram útgáfutónleikar söngkonunnar Karítasar Óðinsdóttur, en hún er að gefa út plötuna Eternity. Ásamt því að vera tónlistarkona er hún einnig plötusnúður og meðlimur í hljómsveitinni Reykjavíkurdætur.

„Ég byrjaði að læra á fiðlu þegar ég var fjögurra ára í Suzuki skólanum og æfði í nokkur ár. Ég æfði líka á píanó og gítar þegar ég var unglingur, sem að nýtist mér mjög vel í dag í lagasmíðarnar. Svo fór ég líka á nokkur námskeið hjá Sönglist í Borgarleikhúsinu sem að var sjúklega gaman. Annars spila flestir í fjölskyldunni á hljóðfæri og syngja, svo það var vægast sagt mjög fjörugt á mínu heimili þegar ég var að alast upp,“ segir hún, innt eftir því hvort hún hafi fengið tónlistarlegt uppeldi.

Það var samt ekki alltaf helsti draumur Karítasar að verða söngkona.

„Ég man mjög sterkt eftir því að þegar ég var barn þá langaði mig að verða fornleifafræðingur, ferðast um heiminn og grafa upp týnda fjársjóði. En sá draumur fjaraði fljótt út og köllunin byrjaði svo að koma í ljós, sem var tónlist. Svo já, að verða söngkona var draumurinn, líka leikkona og dansari, ég átti nokkra stóra drauma,“ útskýrir hún.

Var ekki tilbúin

Karítas gekk til liðs við Reykjavíkurdætur árið 2018.

„Ég kynntist Þuru Stínu í gegnum Prikið en hún var þáverandi plötusnúður hljómsveitarinnar og hún nefndi við mig að þær væru að leita að nýjum plötusnúð til þess að taka við, þar sem að hún var farin að færa sig meira yfir í að syngja og rappa í hljómsveitinni. Þær buðu mér í prufutúr til Bretlands yfir eina helgi.“

Túrinn gekk svo vel að þær buðu Karítas að vera í bandinu.

„Nú er ég búin að vera í hljómsveitinni í um það bil þrjú ár og þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Það er svo mikið afl sem að myndast þegar við stígum allar saman á svið og ég er mjög þakklát fyrir að fá að vera hluti af því,“ segir Karítas.

Karítas segir það alltaf hafa verið planið að gefa út tónlist sjálf en bara þegar hún hafi einfaldlega verið tilbúin til þess.

„Svo ég ákvað að gefa sjálfri mér tíma til þess að vaxa og átta mig á hvernig tónlist mig langaði til að gera. Æfa mig meira í lagasmíðum áður en ég færi að gefa eitthvað út af alvöru.“

Textasmíðin heilandi

Hún segir að textarnir hennar allir séu byggðir á persónulegri reynslu.

„Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta ótrúlega heilandi og hefur hjálpað mér í gegnum mjög margt.“

Karítas segir tónlistina vera svolitla blöndu af mismunandi tónlistarstefnum.

„En nýlega lýsti einhver tónlistinni minni sem „rökkurpoppi“ og mér fannst það passa mjög vel, svo ég held mig við það.“

Platan Eternity fjallar, að sögn Karítasar, um ástina og allar fjölbreyttu hliðarnar á henni.

„Hún er ekki bara um eitthvað eitt ákveðið, heldur er hún meira uppgjör á síðustu árum. Það vefst stundum fyrir mér þegar ég er að reyna að útskýra um hvað hún er, því að lögin komu svolítið bara af sjálfu sér,“ segir hún.

Hún segir að flest lögin á plötunni hafi orðið til í samkomubanninu.

„Já, flest lögin urðu til á því tímabili, það var gott að fá meira svigrúm til þess að einbeita sér að þeim. En inn á milli lærði ég á brimbretti og ferðaðist um landið sem var geggjað.“

Stressblandin spenna

Karítas segist upplifa blöndu af spenningi og stressi fyrir tónleikunum í kvöld, sem hún segir að verði rólegir og nánir.

„Ég hef ekki komið fram síðan í desember og á undan því var það í febrúar á síðasta ári. Held að ef ég er að telja rétt þá sé þetta fimmta skiptið sem ég kem fram með mínu eigin efni, sem er spennandi. Ég kem ein fram og tek öll lögin á nýju plötunni. Kannski tek ég líka eitthvað meira, það mun bara koma í ljós.“

Það er nóg að gera hjá Karítas, sem mun taka dj-sett í næstu viku á Vagninum á Flateyri.

„Svo er ég líka að koma fram á tónleikum með GDRN í Frystiklefanum á Rifi 26. júní, sem ég er mjög spennt fyrir.“

Karítas kemur svo fram á Innipúkanum með Reykjavíkurdætrum um verslunarmannahelgina.

„Ég hlakka mjög mikið til að koma fram með þeim í fyrsta skiptið í langan tíma. Það er loksins allt að vakna til lífsins og ég er mjög spennt fyrir komandi tímum.“

Tónleikarnir fara fram á KEX hostel og hefjast klukkan 20.00. Aðgangur er ókeypis.