Nú á dögunum var tilkynnt að tónlistarkonan og hljóðmaðurinn Salka Valsdóttir og tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, einnig þekktur sem Auður, myndu semja tónlist fyrir uppsetninguna á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í Þjóðleikhúsinu. Salka er meðlimur í hljómsveitunum Reykjavíkurdætur og Cyber. Hún hefur verið búsett í Berlín síðustu árin.

„Ég vann þrjú ár í hljóðdeildinni í Borgarleikhúsinu. Síðustu þrjú árin hef ég búið í Berlín og unnið í leikhúsinu Volksbühne. Þar var ég bæði hljóðmaður og að skapa hljóðmyndir. Svo kom ég núna til Íslands og gerði hljóðmynd fyrir leikrit sem sýnt er í Tjarnarbíói og heitir The Last Kvöldmáltíð,“ segir hún.

Salka hefur unnið mikið með leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarssyni, en hann gegnir stöðu leiklistarmála hjá Volksbühne, sem er eitt virtasta leikhús Þýskalands.

„Við unnum saman að tveimur sýningum í Volksbühne. Í fyrri sýningunni var ég meira eins og aðstoðartónskáld, en vann líka í hljóðdeildinni. Svo gerði ég hljóðmyndina fyrir aðra sýningu sem hann leikstýrði.“

Salka er menntuð sem hljóðmaður. Hún viðurkennir að þetta sé mjög karllægur bransi.

„Já, ég held að þetta séu eitthvað um 98 prósent karlmenn í þessu. Þetta er mjög erki-karllægur bransi.“

Tónlist sem tekur pláss

Þorleifur leikstýrir Rómeó og Júlíu, en þau Salka unnu fyrst saman þegar hann leikstýrði Njálu í Borgarleikhúsinu.

„Ég var hljóðmaður í Njálu. Hann fékk mig svo til að vera á sviðinu og rappa í einu atriðinu. Síðan vann ég líka í hljóðdeildinni í Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu. Ég sótti svo um að vera aðstoðarmaður hans þegar hann setti upp verk sem byggt var á Ódysseifskviðu. Það var fyrsta stóra sýningin hans í Volksbühne. Í kjölfar þess er ég svo ráðin af leikhúsinu, smyglaði mér svona eiginlega inn í hljóðdeildina,“ segir hún.

Hún segir vinnu þeirra Auðuns nokkuð óvenjulega miðað við hefðbundna leikhúsvinnu.

„Hlutverk okkar sem tónskálda í leikhúsi er oftast að skapa nokkurs konar lím fyrir senur, eða til að ýkja eitthvað sem er nú þegar í gangi á sviðinu. Í rauninni ertu alltaf að berjast við það að taka ekki of mikið pláss. Þegar fólk tekur ekki eftir hljóðmyndinni þá þykir það einhvern veginn gott. Þú vilt ekki vinna gegn einhverri orku. Almennt er þetta frekar fíngerð vinna,“ segir hún.

Salka segir að þau Auðunn hafi fengið þau skilaboð að í uppsetningunni á Rómeó og Júlíu mætti tónlistin taka sitt pláss.

„Heimspeki Þorvleifs með tónlist í leikhúsi er svolítið sú að allt sem er á sviðinu, allt sem gerist, það á að taka pláss. Það á að sjást, það á ekki að vera að fela neitt. Hugmyndin um að fela hluti sé í eðli sínu ekki leikhús. Hann leyfir gjarnan skiptingum og sviðsmönnum að sjást. Þannig er að vinna tónlist við verkin sem hann leikstýrir. Ef það er ekki í forgrunni þá vill hann bara að það fari út, því sé frekar sleppt.“

Þrívíð Júlía

Leiðbeiningarnar í þetta sinn eru því að þau eigi að gera plássfreka tónlist.

„Við megum alveg daðra við að gera hana nánast söngleikjalega, hún hjálpi við að leiða áfram söguna. Ég hef verið að vinna mest með Ebbu Katrínu, sem fer með hlutverk Júlíu, og Auðunn með Sigurbjarti Sturlu sem fer með hlutverk Rómeós. Markmið okkar var að skapa tónlistina út frá karakterunum frekar en sögunni sjálfri. Skapa tónlistarheima sem væru ólíkir, þar sem við erum tveir ólíkir listamenn að vinna að þessu hvort í sínu rýminu,“ segir hún.

Þeirra hlutverk er því að skoða karakterana frá öllum hliðum og semja tónlistina út frá því.

„Við fengum mikið frelsi til að gera það. Það var dýrmætt fyrir mig og Ebbu Katrínu að fá að skoða Júlíu og stækka. Það er svo margt ósagt, hún fær talsvert minna pláss í sögunni en Rómeó. Það er miklu meiri áhersla lögð á hans innra líf. Maður fær það stundum á tilfinninguna að Skakespeare hafi ekki endilega þótt neitt sérstaklega vænt um Júlíu. Það skipti hann ekki máli að hún sé þrívíð eða flókin. Í rauninni hefur það að við megum segja söguna í gegnum tónlistina gert Júlíu að þrívíðari karakter. Við getum því sett okkur meira inn í hennar hugarheim. Við skiljum þá kannski betur hennar forsendur fyrir því að vilja sleppa burt úr þessum heimi. Það er búið að vera ótrúlega spennandi að vinna að þessu.“