Leikritið Shakespeare verður ástfanginn (Shakespeare in Love) verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í október. Aron Már Ólafsson (Aron Mola) mun fara með hlutverk hins unga leikskálds Williams Shakespeare og Lára Jóhanna Jónsdóttir leikur konuna sem hann elskar, Víólu de Lesseps. Kristján Þórður Hrafnsson þýðir verkið, en nýjasta þýðing hans er Ríkharður III eftir William Shakespeare.

Fjöldi leikara og tónlistarmanna tekur þátt í sýningunni, en um er að ræða stórsýningu þar sem horfið er aftur til Elísabetartímans í umgjörð og búningum.

Shakespeare verður ástfanginn er rómantískur gamanleikur þar sem spunnið er frjálslega út frá ævi leikskáldsins Williams Shakespeare. Shakespeare er ungt skáld sem reynir að fóta sig í hinu róstusama leikhúslífi Lundúnaborgar á Elísabetartímanum. Hann glímir við að skrifa nýtt leikrit, sem síðar verður Rómeó og Júlía, en óttast að hann hafi glatað skáldgáfunni. Aðalsmeyna Víólu de Lesseps dreymir um að verða leikari, á tímum þar sem samfélagið leyfir einungis karlmönnum að stíga á svið. Shakespeare verður yfir sig ástfanginn af þessari skarpgreindu og listhneigðu ungu konu, og ástin fyllir hann andagift á ný. En elskendurnir lifa á viðsjálum tímum þar sem stéttaskipting er mikil, valdabaráttan harðvítug og stutt er í að sverðin fari á loft.

Leikritið Shakespeare verður ástfanginn var frumsýnt á West End árið 2014 og naut mikilla vinsælda. Verkið er byggt á kvikmyndahandriti eftir Marc Norman og Tom Stoppard en kvikmyndin Shakespeare in Love var frumsýnd árið 1998 og hlaut sjö Óskarsverðlaun, meðal annars sem besta kvikmynd ársins og fyrir besta handrit og Gwyneth Paltrow og Judi Dench fengu verðlaun fyrir leik sinn.