„Ég er sem sagt að gefa út mitt fyrsta lag í rúm tíu ár,“ segir leikstjórinn, leikkonan og síðast en ekki síst söngkonan Selma Björnsdóttir um lagið Undir stjörnum sem hún sleppti lausu á öldum ljósvakans og Spotify í dag. Hægt er að hlusta á lagið neðst í fréttinni.

Selma samdi lagið og textann á ukulele og segir Undir stjörnum til marks um að hún ætli að sinna tónlistinni meira og betur á þessu ári. „Í rauninni má bara segja að tónlistin hafi verið í öðru og þriðja sæti hjá mér síðustu tíu ár og leikstjórnin kannski verið mín stærsta vinna,“ segir Selma sem hefur komið sem leikstjóri að verkefnum víða um lönd.

Selma hefur haft lítinn tíma fyrir tónlistina vegna anna í leikstjórastarfinu en gefur söngnum 12 stig og færir hann upp um sæti með nýja laginu sínu, Undir stjörnum.

Hún segir sönginn alltaf veita henni gleði þannig að hún hafi reynt að grípa einhver tækifæri til þess að syngja þegar tími hafi gefist til. „En ég hef einhvern veginn ekkert gefið mér tíma til þess að setjast niður og spá í hvað mig langar að gera þannig að ég var búin að ákveða að reyna að koma aðeins meira inn í tónlistina á þessu ári og senda frá mér eitthvað efni.“

Gleðisprengja

Selma gerði lagið fyrir grín- og gleðileikinn Bíddu bara sem hún samdi ásamt þeim Björk Jakobsdóttur og Sölku Sól sem syngur bakraddir ásamt Selmu sjálfri og Karli Olgeirssyni sem sá einnig um útsetninguna.

Upphaflega stóð til að frumsýna Bíddu bara þann 9. apríl en heimsfaraldurinn varð til þess að frumsýningin var færð til 9. september. Selma segist þó ekki hafa viljað bíða lengur með lagið.

„Mig langaði samt að senda lagið út í sumarið því það er mikil gleðisprengja og fjallar um íslenskt sumar og ástina. Þetta lag er bara gleði eins og leikritið.“

Björk, Salka Sól og Selma gera stóplagrín að sjálfum sér í Bíddu bara og ganga heldur langt að sögn Selmu.

Selma lýsir Bíddu bara sem „grínsketsa leikriti“ og segir að þær Salka Sól og Björk hafi fljótlega áttað sig á því að þær vildu hafa fullt af tónlist í því.

Samið á ukulele

„Ég virka best undir pressu og þarna hafði ég ástæðu til að semja lag og þá bara samdi ég lag og það kom voða auðveldlega til mín,“ segir Selma sem samdi lagið á ukulele.

„Ég kann, vel að merkja, bara nokkur grip en ákvað að setjast niður og sjá til hvað kæmi. Lagið kom fyrst og svo textinn og okkur fannst þetta passa svolítið vel við sem lokalag sýningarinnar.

Við erum svo með meiri tónlist þarna og semjum það líka allt sjálfar en Kalli Olgeirs kom inn í þetta með okkur en ég samdi Undir stjörnum alveg sjálf og það var í rauninni tilbúið þegar hann kom til leiks.“

Ganga langt í gríni

Selma segir að þær Björk og Salka Sól séu í rauninni einfaldlega að gera stólpagrín að sjálfum sér í Bíddu bara. „Við erum allar á misjöfnum aldursskeiðum og erum svolítið að fjalla um hvað við erum að díla við.

Við erum mjög persónulegar og göngum mjög langt í því að gera grín að okkur. Salka er náttúrlega á þrítugsaldri, ég er „fortysomething“ og Björk „fiftysomething.“

Þannig að það er verið að ræða barneignir og skilnaði. Áföll og vonir og þrár. Og hvað heitir þetta… Tíðahvörf. Og löng hjónabönd og hvernig heldur maður lífi í gömlum hjónaböndum. Og allt mögulegt sem fólk á hverju aldursskeiði fyrir sig er að takast á við.“