Tónlist

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Verk eftir Haydn og Brahms

Eldborg í Hörpu fimmtudaginn 11. febrúar

Einleikari: Sigurgeir Agnarsson Stjórnandi: Eva Ollikainen

Nafn tónskáldsins Joseph Haydn hefur orðið að mörgum aulabröndurum fyrir þær sakir að það hljómar eins og enska orðið hiding. Í einum brandaranum finna hljóðfæraleikararnir ekki tónskáldið, því það er Haydn/hiding. En í raunveruleikanum var Haydn alltaf mjög áberandi, því hann var í vel launaðri stöðu hjá afar fínni fjölskyldu og hafði það gott.

Týndur sellókonsert

Eitt verka Haydns var þó í alvörunni í felum. Þetta var sellókonsert, það er tónsmíð fyrir einleiksselló og hljómsveit. Konsertinn var engu að síður á skrá yfir verk Haydns sem hann sjálfur setti saman. Hann fannst samt ekki fyrr en um tveimur öldum síðar, þegar tónlistarfræðingur var að gramsa í gömlum handritum í safni. Voila; sellókonsert! Og ekki bara eitthvert drasl, eins og hinn týndi fiðlukonsert Schumanns, sem var fluttur hér fyrir nokkru. Nei, sellókonsertinn eftir Haydn er snilld, fullur af lífi og spennu, kræsilegum laglínum og töfrandi hljómum. Það er bara ekki hægt að fá nóg af honum.

Lék í höndum

Konsertinn var fluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Að þessu sinni var einleikarinn íslenskur; Sigurgeir Agnarsson, sem er leiðari sellódeildar hljómsveitarinnar. Konsertinn lék í höndum hans. Melódíurnar voru fallega mótaðar, tónninn í sellóinu safaríkur. Flæðið í tónlistinni var óheft, túlkunin skemmtilega opin og einlæg. Fyrir bragðið naut maður hvers augnabliks.

Eva Ollikainen stjórnaði hljómsveitinni, og samleikur hennar og einleikara var eins og best verður á kosið, nákvæmur og samtaka. Hljómsveitin yfirgnæfði aldrei einleikssellóið, eins og stundum vill verða, heldur lyfti rödd þess upp í hæstu hæðir.

104… og 4

Hin tónsmíðin á dagskránni var sinfónía nr. 2 eftir Brahms. Segja mætti um þessi tvö tónskáld, Haydn og Brahms, að ólíkt höfðust þau að. Haydn samdi hundrað og fjórar sinfóníur. Og Brahms? Bara fjórar. Sá síðarnefndi var með fullkomnunaráráttu og henti fullt af verkum sínum (að mati undirritaðs hefði hann mátt henda einu í viðbót, tvíleikskonsertinum fyrir fiðlu og selló, sem er afspyrnuleiðinlegur). En sinfónían sem nú hljómaði er ein sú skemmtilegasta eftir Brahms. Hún samanstendur af undurfögrum stefjum og drífandi atburðarás, sem endar í miklum hvelli.

Ólýsanleg tónlist

Stjórnandinn, Ollikainen, sýndi næma tilfinningu fyrir Brahms. Hér skal ekki reynt að skilgreina í hverju sú tilfinning er fólgin, því það er í raun ómögulegt. Vissulega er hægt að tala um íhaldssemi í formgerð, skaphita, nostalgíu og dramatík. Það eru hins vegar bara innantóm orð við hliðina á sjálfri tónlistinni, sem er ólýsanleg þegar best lætur. Kannski kemur hún beint frá Guði.

Ollikainen náði að koma þessu kraftaverki til skila. Tæknilega séð var hljómsveitarleikurinn í senn agaður og kröftugur, og heildaráferðin munúðarfull, akkúrat eins og hún átti að vera. Skáldavíman var sterk og lokahnykkurinn stórfenglegur. Hljómsveitin spilaði sem ein manneskja, slík var einbeitingin í leiknum. Þetta var dásemd.

Niðurstaða: Fantagóðir tónleikar.