Grameðluhöfuðkúpan úr Jurrassic Park, öxin sem persóna Jack Nicholson notar í The Shining, grímugriplan úr Alien (e. facehugger) og upprunarlegi búningur leðurblökumannsins sem Michael Keaton klæddist eru meðal leikmuna sem leikmunaverslunin The Prop Store mun selja á uppboði í lok september og byrjun október í London.

Talið er að munirnir muni seljast á margar milljónir króna. Um er að ræða eitt stærsta uppboð síðari tíma af leikmunum úr Hollywood kvikmyndum. Uppboðið fer fram í BFI Imax kvikmyndahúsinu í London.

Leikmunirnir og búningar eru misverðmætir en dýrasti gripurinn er sennilega stormsveitarhjálmur úr Star Wars: A New Hope. Hjálmurinn er metinn á 120 þúsund til 180 þúsund bresk pund, eða um 18 til 27 milljónir króna.

Hér er listi yfir nokkra muni sem verða meðal annars til sölu á uppboðinu:

Öxin sem Jack Torrance, persóna Jack Nicholson, notar til að brjóta niður baðherbergishurðina í The Shining: 40 þúsund - 60 þúsund pund.
Stormsveitarhjálmur úr Star Wars: A New Hope: 120 þúsund - 180 þúsund pund.
Heilaga Handsprengjan úr Monty Python kvikmyndinni The Holy Grail: 50 þúsund - 100 þúsund pund.
Grímugriplan úr Alien (e. facehugger): 50 þúsund - 70 þúsund pund.
Nike skór og sokkar Forrest Gump sem Tom Hanks klæddist: 8 þúsund - 10 þúsund pund.
Hanskinn hans Freddy Krueger úr Freddy Vs. Jason: 20 þúsund -30 þúsund pund.
Fjólubláa geislasverð Mace Windu, persónu Samuel L. Jackson úr Star Wars: 50 þúsund - 100 þúsund pund.
Búningur John Hammond, leikinn af Richard Attenborough, úr Jurassic Park: 15 þúsund - 25 þúsund pund (Stafurinn með moskítóflugunni í steingerða trjákvoðanum sem John Hammond gengur með verður einnig til sölu).
Herklæði Maximus sem Russell Crowe klæddist í Gladiator: 30 þúsund - 50 þúsund pund.
Draugagildran úr Ghostbuster: 80 þúsund - 120 þúsund pund.