Stjarnan Selena Gomez mætti með yngri systur sinni, Grace Teefey, á frumsýningu á Disney myndinni Frozen 2. Systurnar vöktu miklu lukku meðal viðstaddra þar sem þær þóttu minna á aðalhlutverk bíómyndarinnar, systurnar Önnu og Elsu. Selena og Grace klæddust eins kjólum frá hönnuðinum Marc Jacobs ásamt því að bera báðar fjaðurskikkju alsetta gimsteinum.
Stjörnurnar sem ljá persónum Frozen raddir sínar létu sig ekki vanta á rauða dregilinn og má þar nefna Kristen Bell, Jonathan Groff, Idina Mendez, Josh Gad og fleiri. Selena og yngri systir hennar þóttu þó bera af og sagði söngkonan að dagurinn hafi verið einn sá besti í lífi Grace litlu.

Mikil eftirvænting
Aðdáendur hafa beðið lengi eftir sjálfstæðu framhaldi bíómyndarinnar Frozen sem sló rækilega í gegn árið 2013. Kvikmyndin sló hvert vinsældarmet á eftir öðru ásamt því að hljóta tvenn Óskarsverðlaun, sem besta tölvuteiknaða myndin og fyrir lagið Let It Go.
Frozen 2 mun að sjálfsögðu fylgja eftir ævintýrum systranna Önnu og Elsu á ný. Í þetta skipti fara þau Elsa, Anna, Kristoff, snjókarlinn Ólafur og hreindýrið Sveinn í leit að uppruna töframáttar Elsu. Myndin verður frumsýnd á Íslandi 22. nóvember næstkomandi.
