„Svona týnist ekki lengi í Eyjum, þannig að sjálfsögðu er búið að redda þessu,“ segir Erpur Eyvindarson, betur þekktur sem Blaz Roca, sem staddur er á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Hann birti færslu í morgun á Facebook síðunni Dalurinn Eyjum, þar sem hann auglýsti eftir töskunni sinni, en að sögn Erps hvarf hún fyrir framan dansgólfið á brekkusviðinu í Herjólfsdal í gærkvöldi á meðan annaðhvort Bubbi eða FM95BLÖ drengirnir voru á sviði.

„Veskið, lyklarnir, snyrtidótið og öll fötin mín fyrir kvöldið voru í sekknum,“ sagði Erpur, og sagðist heita fundarlaunum fyrir hvern þann sem kæmi töskunni aftur í hans hendur.

Ákall Erps virðist heldur betur hafa skilað sér, því örfáum tímum síðar kom taskan í leitirnar. Vígreifur Erpur birti myndband á Facebook síðu sinni þar sem hann segist ætla að heiðra Vestmannaeyjar vegna fundarins.

„Af því Vestmannaeyjar eiga engan hatt, þá er ég með færeyska hattinn. Ég ætla að vera glæsilegur í kvöld, þannig að ekki hafa áhyggjur af þessu.“

Erpur stígur á stokk í kvöld ásamt XXX Rottweiler hundum, en þeir munu frumflytja nýtt lag ásamt þeim Blaffa og spéfuglinum og leikaranum Villa Neto.

Lagið ber heitið Gera grín, en sveitin mun stíga á svið eftir miðnætti í kvöld, sem af mörgum er talinn besti tíminn og hápunktur Þjóðhátíðar.