Seiglurnar er hópur sex seigra kvenna sem hyggjast sigla skútunni Esju kringum Ísland í sumar á rúmlega þremur vikum. Esja er 50 feta Bavaria-skúta og ber allt að 10 kvenna áhöfn.

Markmiðið er að beina athygli að hafinu og þeirri margþættu umhverfisvá sem að því steðjar. Þá vilja þær hvetja alla til ábyrgrar umgengni við hafið og auðlindir þess. Jafnframt vilja þær gera konur sýnilegri í þessu umhverfi í leik og starfi.

Sigríður Ólafsdóttir er skipstjóri áhafnarinnar. Í áhöfn eru þær Anna Karen Jörgensdóttir, Bryndís Skúladóttir, Halla Ólafsdóttir og Tara Ósk Markúsdóttir. Helena W. Óladóttir er leiðangursstjóri ferðarinnar. Alls 29 gestahásetar stíga svo um borð í viðkomuhöfnum víða um land og takast á við áskoranir hafsins um borð í Esjunni í kringum landið.

Komdu og skoðaðu Esju

Nú styttist í brottför þessara kvenna, undirbúningur er á lokametrunum og hátíðarhelgi fram undan. Gestum og gangandi er boðið að koma við í skútunni Esju á laugardaginn, 12. júní, á milli kl. 13.00 og 15.00 og svo er stefnt að því að sigla úr höfn á sunnudaginn, 13. júní, kl. 15.00.