„Loksins,“ segir leirlistakonan Antonía Bergþórsdóttir, eldhress með að vera komin til Grænlands í þriðja skipti. Hún segist vera mjög áfram um að efla tengslin milli Íslands og Grænlands þar sem hún er orðin öllum hnútum kunnug eftir að hafa sótt sér leir þangað í tvígang og kennt leirkerasmíði í leiðinni.

Antonía er að þessu sinni í för með málaranum Írisi Maríu Leifsdóttur, Yelenu Arakelow dansara og Söru Flindt tónlistarkonu en í maí og júní á næsta ári ætla síðan grænlenskar listakonur að endurgjalda þeim heimsóknina.

Þessir tveir hópar listakvenna hafa sameinast um verkefnið Samferða | Ingerlaaqatigiinneq. „Sem miðar að því að fá grænlenskar listakonur til Íslands og íslenskar listakonur til Grænlands,“ útskýrir Antonía. „Og við erum að taka þátt í listahátíðinni Nuuk Nordic Culturefestival og verðum, svo fátt eitt sé nefnt, með tónleika, danssýningu, myndlistar- og leirkerasýningu,“ heldur Antonía áfram.

Íslensku stöllurnar við leirleit á Grænlandi.
Fréttablaðið/Aðsend

Segulmagnaður sandur

Antonía segir sandinn á Grænlandi kjörinn til leirgerðar en þær stöllur hafa undanfarna daga dvalið í bænum Sisimiut og meðal annars leitað að grænlenskum jarðefnum á nærliggjandi ströndum.

„Við fundum til dæmis sand sem er „magnetic“. Magnaður sandur,“ segir Antonía um segulmagn strandlengjunnar. „Þetta eru pínulitlir kvartkristallar plús sandur sem heitir tungsteinn og er málmur sem er segulmagnaður,“ segir hún.

Antonía segir í raun magnað hversu lítil samskipti séu á milli þessara næstu nágrannaþjóða og segist hvergi nærri búin að fá nóg af íslandinu.

„Alls ekki! Það verður lífstíðarverkefni að koma hingað. Við eigum svo margt sameiginlegt og fólkið er yndislegt og áhugasamt og ég held að það sé mikilvægt að nágrannaþjóðirnar vinni meira saman. Líka á listrænan hátt.“

Sandurinn á Grænlandi er kyngimagnaður.
Fréttablaðið/Aðsend