Fjölmiðlar í Bandaríkjunum greina frá því í kvöld að sambandi fyrirsætunnar, fjárfestisins og raunveruleikastjörnunnar Kendall Jenner og körfuboltamannsins Devin Booker sé lokið.

Að sögn heimildarmanna TMZ var ákvörðunin tekin í sameiningu þar sem þau séu bæði afar upptekin í sínu starfi.

Þau fóru að stinga saman nefjum árið 2020 og staðfestu sambandið í fyrra en þau voru bæði of upptekin við að sinna ferlinum til að viðhalda sambandinu.

Booker er meðal bestu leikmanna NBA-deildarinnar í körfubolta og Jenner er afar vinsæl fyrirsæta ásamt því að standa í fyrirtækjarekstri.

Booker er fjórði leikmaðurinn úr NBA sem hefur verið í sambandi við Jenner á eftir Ben Simmons, Blake Griffin og Jordan Clarkson.