Katrín Middleton prinsessan af Wales vakti mikla athygli fyrir klæðaburð sinn í dag þegar hún og Vilhjálmur Bretaprins mættu til að skoða aðstæður á vettvangi matargjafar til fátækra í London í dag. Breska götublaðið The Sun greinir frá.
Þangað mætti Katrín í glæsilegri bleikri kápu og segir í umfjöllun breska götublaðsins að sumir telji að um lítilsháttar skot gegn Meghan Markle, svilkonu hennar, sé um að ræða. Meghan sagði í heimildarþáttum Netflix að hún hefði aldrei klæðst litríkum fötum í Bretlandi.
„Mest af tíma mínum í Bretlandi þá klæddist ég aldrei lit. Það var pæling hjá mér. Eins og ég skil þetta máttu ekki klæðast sömu fötum og hennar hátign, en á viðburðum máttu heldur ekki klæðast sama lit og aðrir hátt settir fjölskyldumeðlimir,“ sagði Meghan.
„Þannig ég hugsaði með mér, hvaða lit munu þau aldrei klæðast? Brúnn? Kremlitaður? Hvítur? Þannig að ég klæddist mikið af daufum litum og líka svo ég gæti fallið í hópinn. Ég var ekki að reyna að skera mig úr.“
