Netverjar vestanhafs velta upp kenningum um hvort Melania Trump forsetafrú eigi tvífara sem ferðast um með Donald Trump Bandaríkjaforseta þegar hún vill ekki sjálf mæta á viðburði.

Ljósmyndir eru á flakki um netið sem sumir telja sanna þessa kenninguna og hefur myllumerkið Fake Melania farið á flug um Twitter.

Fjölmiðlamaðurinn David Leavitt deildi þessari mynd af Melaniu Trump og segja margir myndina vera af annarri konu. Aðrir segja að búið sé að eiga við myndina.

Ljósmyndarinn sem tók myndina er Chris Kleponis fyrir myndaveituna CNP (Consolidated News Photos) en hann tekur einnig myndir fyrir Getty images.

Aðrir hafa birt fleiri myndir þar sem Melania virðist ólík sjálfri sér.

Ekki eru alvarlegar ásakanir á lofti í tengslum við þessa kenningu og taka margir þátt í gríninu og birta fleiri myndir af „gervi-Melaniu“ eins og má sjá hér fyrir neðan.

Trump hefur áður svarað þessum kenningum eins og árið 2019 þegar hann sagði fjölmiðla hafa átt við ljósmyndir af eiginkonu sinni.