Bandaríski áhrifavaldurinn Stella Barey segist hafa sofið hjá svaramanni föður síns nóttina eftir brúðkaupið hans. Hún greindi frá þessu á TikTok, en New York Post fjallar um málið.

Hún segist hafa verið að hitta svaramanninn í fyrsta skipti, en hann er búsettur í Svíþjóð. Auk þess segir hún að það hafi komið sér á óvart hversu myndarlegur hann væri.

„Faðir minn var að giftast núverandi eiginkonu sinni í Montana, svo ég flaug þangað,“ segir Barey í myndbandi á TikTok. „Í sjálfu brúðkaupinu var ég á fremsta bekk, og þar sem hann var svaramaðurinn var hann beint fyrir framan mig. Í sífellu náðum við augnsambandi, og ég fann fyrir mikilli spennu okkar á milli.“

Barey greinir frá því að eftir brúðkaupsveisluna hafi hún farið ásamt bestu vinkonu sinni í Airbnb-íbúð svaramannsins. Um nóttina hafi þau sofið saman, á meðan vinkonan var steinsofandi.

Daginn eftir hafi hann skutlað þeim heim, en Barey segist ekki hafa áttað sig á því hvort hann hafi skammast sín eða ekki. Þá segist hún ekki hafa sagt vinkonu sinni frá atburðum næturinnar.

Hún segist ekki hafa haft áhuga á að vera í sambandi við manninn, og vildi ekki að faðir sinn myndi komast að leyndarmálinu. „Ég veit ekki til þess að faðir minn hafi nokkurn tímann komist að sannleikanum. Ég sagði honum aldrei frá því, og ég er nokkuð viss um að vinur hans hafi heldur ekki sagt honum, því þeir eru ennþá vinir.“