Bandaríska poppstjarnan Adam Levine hefur tjáð sig um meint framhjáhald sitt með fyrirsætunni Sumner Stroh. Hann segist ekki hafa haldið framhjá, en viðurkennir að hafa brotið trúnað

Fyrirsætan hélt því fram í gær að hún hafi verið viðhald Levine í rúmt ár og tekið þátt í hjúskaparbrotum hans, en hann hefur verið giftur hinni namibísku Behati Prinsloo í átta ár.

Stroh greindi frá þessu á TikTok, einungis nokkrum dögum eftir að Prinsloo og Levine greindu frá því að hún væri barnshafandi. Stroh segir að Maroon 5-söngvarin hafi spurt hana hvort sér þætti í lagi að barnið yrði skýrt í höfuðið á henni. Máli sínu til stuðnings birti fyrirsætan textaskilaboð af meintum samskiptum sínum við Levine.

Adam Levine sendi TMZ yfirlýsingu vegna málsins, en þar segist hann hafa sent daðurgjörn og ástleitin skilaboð, en sagðist ekki hafa haldið framhjá.

„Ég sýndi dómgreindarleysi með því að tala við einhvern annan enn eiginkonu mína á daðurgjarnan hátt. Ég hélt ekki fram hjá, þrátt fyrir það fór ég yfir mörk á kafla í lífi mínu sem ég sé eftir.“ segir í yfirlýsingu popparans, sem fullyrðir að hann hafi tekið full ábyrgð á gjörðum sínum og að þetta muni ekki koma fyrir aftur.

TMZ greinir síðan frá því í kvöld að í kjölfarið hafa fleiri konur stigið fram og sakað Levine um að daðra við sig á samfélagsmiðlum.