Nýjasta myndin um njósnarann heims­fræga James Bond, No Time To Die, var loksins frum­sýnd í dag en út­gáfu­dagur myndarinnar hefur frestast í eitt og hálft ár vegna kóróna­veirufar­aldursins.

Um er að ræða 25. myndina um ævin­týri James Bond og er þetta síðasta myndin þar sem Daniel Cra­ig mun fara með hlut­verkið. Hinn 53 ára gamli Cra­ig hefur farið með hlut­verkið í fimm myndum, þeirri fyrstu árið 2016.

Í sam­tali við Sky við frum­sýningu myndarinnar í Royal Albert Hall í Lundúnum í dag sagðist Cra­ig ekki eiga neinar slæmar minningar í hlut­verki njósnarans.

„Ég á raun­veru­lega engar slæmar minningar, ekki neinar, allt fellur það í skugga þess góða. En ég held að það muni taka um það bil fimm­tán ár til við­bótar fyrir mig að rekja þetta allt saman, þannig spurðu mig eftir fimm­tán ár,“ sagði Cra­ig léttur í bragði.

Að­spurður um hvort hann hafi ein­hver ráð til þeirra sem tekur við keflinu, hver svo sem það verður, sagði hann svo ekki vera. „Til allra hamingju er það ekki mitt vanda­mál,“ sagði Cra­ig. „Gerðu eitt­hvað frá­bært með þetta og gerðu þetta að þínu eigin,“ bætti hann þó við.

Fyrsta myndin sem Cra­ig lék í var Casino Roya­le, sem kom út árið 2006, og síðar lék hann í myndunum Qu­antum of Solace (2008), Sky­fall (2012) og Spectre (2015). Seinasta myndin, No Time To Die, er síðan væntan­leg í kvik­mynda­hús.