Emma Heming, eigin­kona Hollywood stjörnunnar Bruce Willis, segir að það hafi tekið af sér toll að hafa þurft að sinna fjöl­skyldunni eins mikið og raun ber vitni. E News! greinir frá.

Bruce Willis greindi ný­lega frá því að hann væri hættur að leika. Hann er með mál­stols­sjúk­dóm (e. aphasia) og segir Emma að veikindi leikarans hafi tekið sinn toll af fjöl­skyldunni.

„Ég set þarfir fjöl­skyldunnar minnar ofar mínum eigin og það gerir mig alls ekki að neinni hetju,“ segir Emma. „Sú orka sem hefur farið í um­mönnun fjöl­skyldu­með­lima minna hefur hins­vegar tekið toll af and­legri heilsu minni og al­mennu heil­brigði og ekki hjálpað neinum í fjöl­skyldunni.“

Saman eiga þau Emma og Bruce tvær dætur, hina tíu ára gömlu Mabel Willis og hina átta áru gömlu E­velyn Willis. Emma segist hafa þurft að endur­hugsa það gjör­sam­lega hvernig hún getur sem best staðið við bakið á eigin­manni sínum.

„Ein­hver sagði mér fyrir löngu síðan að þegar þú of­hugsar um ein­hvern annan, þá endirðu á því að hugsa ekki nægi­lega vel um sjálfa þig. Það fékk mig til að hugsa mig raun­veru­lega um,“ segir Emma. Hún segist reyna að gefa sér tíma fyrir sjálfa sig inni á milli.

„Ég hugsa alls ekki nógu vel um sjálfa mig en ég hef komist að því að það eru nokkur grunn­at­riði sem ég verð að hafa í huga og þar er líkams­rækt efst á lista,“ segir Emma. „Það er tíminn sem ég get slökkt á mér og hugsað bara um sjálfa mig og látið mér líða vel.“