Emma Heming, eiginkona Hollywood stjörnunnar Bruce Willis, segir að það hafi tekið af sér toll að hafa þurft að sinna fjölskyldunni eins mikið og raun ber vitni. E News! greinir frá.
Bruce Willis greindi nýlega frá því að hann væri hættur að leika. Hann er með málstolssjúkdóm (e. aphasia) og segir Emma að veikindi leikarans hafi tekið sinn toll af fjölskyldunni.
„Ég set þarfir fjölskyldunnar minnar ofar mínum eigin og það gerir mig alls ekki að neinni hetju,“ segir Emma. „Sú orka sem hefur farið í ummönnun fjölskyldumeðlima minna hefur hinsvegar tekið toll af andlegri heilsu minni og almennu heilbrigði og ekki hjálpað neinum í fjölskyldunni.“
Saman eiga þau Emma og Bruce tvær dætur, hina tíu ára gömlu Mabel Willis og hina átta áru gömlu Evelyn Willis. Emma segist hafa þurft að endurhugsa það gjörsamlega hvernig hún getur sem best staðið við bakið á eiginmanni sínum.
„Einhver sagði mér fyrir löngu síðan að þegar þú ofhugsar um einhvern annan, þá endirðu á því að hugsa ekki nægilega vel um sjálfa þig. Það fékk mig til að hugsa mig raunverulega um,“ segir Emma. Hún segist reyna að gefa sér tíma fyrir sjálfa sig inni á milli.
„Ég hugsa alls ekki nógu vel um sjálfa mig en ég hef komist að því að það eru nokkur grunnatriði sem ég verð að hafa í huga og þar er líkamsrækt efst á lista,“ segir Emma. „Það er tíminn sem ég get slökkt á mér og hugsað bara um sjálfa mig og látið mér líða vel.“