Katie Nicholl, sérfræðingur í málum Bresku konungsfjölskyldunnar, segir ástæðuna fyrir því að Harry prins hafi farið einsamall í Balmoral-kastala, að kveðja Elísabetu Bretlandsdrottnigu, hafi verið sú að eiginkonu hans, Meghan Markle, hafi ekki verið boðið.

„Samkvæmt mínum heimildum vildi fjölskyldan að Harry yrði viðstaddur, jafnvel þó honum tækist ekki að koma til Balmoral í tæka tíð til að hitta ömmu sína,“ segir Nicholl í samtali við ET.

„En Meghan, hertogaynja Sussex, var, samkvæmt því sem okkur skilst, ekki boðið að hitta fjölskylduna,“ segir hún og bætir við „Henni var sagt að hún gæti farið til Balmoral síðar. Ég tel það ansi þýðingarmikið að Harry prins hafi ferðast til Balmoral einn síns liðs, án eiginkonu sinnar.“

Harry og Meghan höfðu bæði ætlað sér að mæta á góðgerðarviðburð í London, en eftir að fregnir bárust um að heilsu drottningarinnar hefði hrakað afboðuðu þau sig bæði. Í kjölfarið flaug Harry til Skotlands.

Fyrst á fimmtudag var greint frá því að þau myndu bæði fara til Balmoral, en síðar um daginn kom í ljós að Harry hafði ferðast einn síns liðs.