Leikkonan Angelina Jolie opnar sig í viðtali við breska miðilinn Guardian og segir frá því hvers vegna skilnaður hennar við Brad Pitt er mannréttindamál, hvernig henni tókst að flýja Harvey Weinstein og hvað ungir aðgerðasinnar hafa kennt henni.

Jolie hefur undanfarin 20 ár einbeitt sér að mannréttindabaráttu sinni sem sérstakur erindreki fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og hefur farið í fleiri en 60 vettvangsferðir á átaka- og hamfarasvæði um allan heim.

Nýverið gaf hún einnig út bók í samstarfi við sérfræðing í réttindum barna um réttindi barna, hvernig börn öðlast rétt og hvernig þau geta sótt rétt sinn. Hún útskýrir í viðtalinu af hverju hún ákvað að skrifa þessa bók og hvernig hún komst að því að Bandaríkin hafa ekki lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvernig börn í Evrópu eigi þannig meiri rétt en börn í Kaliforníu.

Í viðtalinu gefur hún til kynna að hún hafi komist að þessu í tengslum við málaferli sem enn eru í gangi vegna skilnaðar hennar við leikaranna Brad Pitt og í tengslum við ásakanir sem hafa komið upp um heimilisofbeldi. Skilnaðurinn sjálfur gekk í gegn árið 2019 en málaferlin tengjast forræðisdeilum þeirra vegna sex barna þeirra en Jolie sótt um skilnað eftir atvik í einkaflugvél þeirra þar sem Pitt var ölvaður og er sagður hafa öskrað á son þeirra. Hann hefur ávallt neitað fyrir að hafa gengið lengra en það.

Viðtalið er ítarlegt og lengra en þar fer hún einnig yfir samband sitt við móður sína, ættleiðingu barna hennar og margt fleira.

Viðtalið er hægt að lesa hér.