Scotti­e Pippen, fyrr­verandi liðs­fé­lagi körfu­bolta­goð­sagnarinnar Michael Jordan, er sagður vera ösku­illur út í fé­laga sinn vegna efnis­taka í heimildar­þáttunum The Last Dance, sem sýndir eru á Net­flix.

Guar­dian greinir frá en þættirnir eru fram­leiddir af Michael Jordan sjálfum og hafa notið mikilla vin­sælda undan­farnar vikur. Í um­fjöllun miðilsins er haft eftir David Kaplan, út­varps­manni á vegum ESPN að Pippen hafi bæst í hóp fyrr­verandi leik­manna Chi­cago Bulls sem pirra sig á „ein­hliða“ efnis­tökum þáttanna, Jordan í hag.

„Hann er svo reiður út í Michael og hvernig hann var sýndur, kallaður sjálfs­elskur, kallaður þetta, kallaður hitt og hann er brjálaður yfir því að hann hafi tekið þátt og ekki áttað sig á því hvað hann var að koma sér út í,“ segir út­varps­maðurinn.

Gagn­rýn­endur hafa bent á að þættirnir, sem fjalla um veg­ferð NBA liðsins frá Chi­cago að þeirra sjötta meistara­titli árin 1997-1998, reiði sig of mikið á sjónar­horn Jordan, sem fékk loka­orðið um efnis­tök og klippingu þáttanna.

Í við­tölum sem tekin eru við leik­mennina í nú­tímanum má meðal annars sjá Jordan kalla sinn mikil­vægasta fé­laga í liðinu „sjálfs­elskan“ og efast um að slæm frammi­staða Pippen í leik sjö í úr­slitum austur­deildarinnar árið 1990 þar sem Bulls töpuðu gegn Detroit Pi­stons, hafi raun­veru­lega mátt rekja til mí­grenis líkt og Pippen sjálfur full­yrti.

„Pippen fannst eins og að allt að síðustu mínutunum í leik sex gegn Jazz [í úr­slitum NBA árið 1998 sem fram kemur í loka­þætti seríunnar] hafi þetta snúist um að „lemja á Scotti­e, lemja á Scotti­e, lemja á Scotti­e,“ segir Kaplan.

Segir Jordan hafa gengið of langt

Fregnir af meintri reiði Pippen vegna þáttanna koma einungis degi eftir að Horace Grant, annar fyrr­verandi leika­maður Bulls, lýsti því yfir að heimildar­þættirnir hafi verið klipptir til að láta Jordan líta betur út.

„Ég myndi segja að serían hafi skemmtana­gildi, en við vitum, sem vorum þarna sem leik­menn, að um 90% af því var kjaft­æði þegar það kemur að raun­veru­leikanum,“ segir Horace í út­varps­þættinum Kap and Co á ESPN 1000 út­varps­stöðinni.

„Þetta var ekki raun­veru­legt - vegna þess að mikið af hlutum sem að Jordan sagði við suma af liðs­fé­lögum sínum, urðu til þess að þeir svöruðu honum til baka. En það var allt ein­hvern veginn klippt úr úr heimildar­þáttunum, ef þú vilt kalla þetta heimildar­þætti.“

Í þáttunum er Jordan sagður hafa gert allt til þess að vinna, jafn­vel þó það hafi komið niður á vin­sældum hans. Grant, sem var liðs­maður Bulls í sjö ár, segir Jordan stundum hafa gengið of langt.

„Honum fannst hann geta stjórnað mér, en hafði því miður rangt fyrir sér. Því í hvert sinn sem hann óð í mig, óð ég í hann til baka,“ segir Grant. Hann segir hið sama hins vegar ekki hafa verið á teningnum hvað varðar liðs­fé­laga þeirra, þá Will Per­du­e, Ste­ve Kerr og Scott Burrell.

„Það var hræði­lega sorg­legt að sjá. Að sjá gaur, leið­toga, vaða í þessa menn þannig. Ég skil að þegar kemur að æfingum, þarftu að ýta hér og ýta þar, en að kýla leik­menn og þannig hluti. Og kalla þá ljótum nöfnum, það var ó­þarfi.“