„Þetta er mjög gott meðal við öllu álaginu sem fylgir verkalýðshreyfingunni,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem á morgun tekur upp tvö lög með nýju hljómsveitinni Fjöllum.
Frá unga aldri hefur Ragnar Þór verið í ýmsum hljómsveitum. „Ég var að hitta gamla félaga sem voru að spila saman í gamla daga framsækið og metnaðarfullt rokk,“ segir hann um nýlegan fund sinn með meðlimum hljómsveitarinnar Los.
„Þetta er gamall vinahópur sem reynir að hittast reglulega og rifja upp gamla takta en síðan er ég í annarri hljómsveit sem er að fara að taka upp tvö ný lög sem væntanlega verða gefin út með vorinu,“ segir Ragnar Þór og á þar við hljómsveitina Fjöll.

„Við erum að fara í upptökur um helgina að taka upp ný lög með nýrri hljómsveit. Ég er enn þá í fullu fjöri, þótt þetta sé kannski ekki eins rokkað. Þetta verður töluvert lágstemmdara en í gamla daga – og vonandi aðgengilegra,“ svarar Ragnar Þór kíminn spurður hvers kyns tónlist verði þar á ferð.
Ragnar Þór kveðst hafa leikið á flest hljóðfæri.
„En trommurnar eru mitt aðal. Ég er trommari í þessari hljómsveit og trommaði í þeim hljómsveitum sem ég var í sem ungur maður,“ segir hann.
Aðspurður segir Ragnar Þór lög Fjalla ekki vera verkalýðssöngva enda spilamennskan ekki tengd verkalýðshreyfingunni sérstaklega.

„Ég held að þetta sé meira það sem maður hefur ástríðu fyrir að gera, sem er að spila,“ svarar Ragnar Þór og ítrekar það sem hann sagði áður um góð áhrif þess að spila á hljóðfæri og vera í hljómsveit. „Það er gott að dreifa huganum í áhugamálunum. Það gefur mér mikið.“
Ragnar Þór semur ekki lögin sem Fjöll flytja. „Ég hef verið minnst í því að semja en við erum saman í því að útsetja og ég slæ taktinn,“ segir trommuleikarinn.
Frá unglingsaldri var Ragnar Þór í hljómsveitinni Guði gleymdir sem síðar varð hljómsveitin Los, nefnd eftir einu laga Guði gleymdra. Sú hljómsveit gaf að hans sögn út sitt fyrsta lag 1993. „Það sem Los var að gera finnst mér alltaf stórskemmtilegt. Þetta nýja er aðeins rólegra.“
„Þeir sem lifa og hrærast í músíkinni vita að hún er lífið, það sem gefur lífinu gildi og gleði.“
Sú mynd sem oftast er dregin upp af Ragnari Þór segir hann oft litaða af togstreitu og átökum, og ef till ekki að ástæðulausu þegar menn eru í mikilli baráttu.
„En síðan er raunveruleikinn oft og tíðum annar. Það er að minnsta kosti ekki þannig með mig að það sé togstreita og leiðindi í kring um vinina. Þeir sem lifa og hrærast í músíkinni vita að hún er lífið, það sem gefur lífinu gildi og gleði.“
