„Þetta er mjög gott meðal við öllu á­laginu sem fylgir verka­lýðs­hreyfingunni,“ segir Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, sem á morgun tekur upp tvö lög með nýju hljóm­sveitinni Fjöllum.

Frá unga aldri hefur Ragnar Þór verið í ýmsum hljóm­sveitum. „Ég var að hitta gamla fé­laga sem voru að spila saman í gamla daga fram­sækið og metnaðar­fullt rokk,“ segir hann um ný­legan fund sinn með með­limum hljóm­sveitarinnar Los.

„Þetta er gamall vina­hópur sem reynir að hittast reglu­lega og rifja upp gamla takta en síðan er ég í annarri hljóm­sveit sem er að fara að taka upp tvö ný lög sem væntan­lega verða gefin út með vorinu,“ segir Ragnar Þór og á þar við hljóm­sveitina Fjöll.

Nýskriðnir úr grunnskóla og Guði gleymdir.
Aðsend mynd

„Við erum að fara í upp­tökur um helgina að taka upp ný lög með nýrri hljóm­sveit. Ég er enn þá í fullu fjöri, þótt þetta sé kannski ekki eins rokkað. Þetta verður tölu­vert lág­stemmdara en í gamla daga – og vonandi að­gengi­legra,“ svarar Ragnar Þór kíminn spurður hvers kyns tón­list verði þar á ferð.

Ragnar Þór kveðst hafa leikið á flest hljóð­færi.

„En trommurnar eru mitt aðal. Ég er trommari í þessari hljóm­sveit og trommaði í þeim hljóm­sveitum sem ég var í sem ungur maður,“ segir hann.

Að­spurður segir Ragnar Þór lög Fjalla ekki vera verka­lýðs­söngva enda spila­mennskan ekki tengd verka­lýðs­hreyfingunni sér­stak­lega.

Ungi trommarinn kominn í gang.
Aðsend mynd

„Ég held að þetta sé meira það sem maður hefur ást­ríðu fyrir að gera, sem er að spila,“ svarar Ragnar Þór og í­trekar það sem hann sagði áður um góð á­hrif þess að spila á hljóð­færi og vera í hljóm­sveit. „Það er gott að dreifa huganum í á­huga­málunum. Það gefur mér mikið.“

Ragnar Þór semur ekki lögin sem Fjöll flytja. „Ég hef verið minnst í því að semja en við erum saman í því að út­setja og ég slæ taktinn,“ segir trommu­leikarinn.

Frá ung­lings­aldri var Ragnar Þór í hljóm­sveitinni Guði gleymdir sem síðar varð hljóm­sveitin Los, nefnd eftir einu laga Guði gleymdra. Sú hljóm­sveit gaf að hans sögn út sitt fyrsta lag 1993. „Það sem Los var að gera finnst mér alltaf stór­skemmti­legt. Þetta nýja er að­eins ró­legra.“

„Þeir sem lifa og hrærast í músíkinni vita að hún er lífið, það sem gefur lífinu gildi og gleði.“

Sú mynd sem oftast er dregin upp af Ragnari Þór segir hann oft litaða af tog­streitu og á­tökum, og ef till ekki að á­stæðu­lausu þegar menn eru í mikilli bar­áttu.

„En síðan er raun­veru­leikinn oft og tíðum annar. Það er að minnsta kosti ekki þannig með mig að það sé tog­streita og leiðindi í kring um vinina. Þeir sem lifa og hrærast í músíkinni vita að hún er lífið, það sem gefur lífinu gildi og gleði.“

Meðlimir hljómsveitarinnar Fjalla. Ragnar Þór Ingólfsson annast taktinn.
Aðsend mynd