Framlag hljómsveitarinnar Hatara sem komst áfram í Söngvakeppninni um helgina hefur vakið mikla athygli erlendis og Jóhannes Þór Skúlason, sérstakur áhugamaður um Eurovision keppnina, fyrrverandi aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist sjá jákvætt umtal um framlagið á samfélagsmiðlum og að það sé það athyglisverðasta.

„Það er alveg sama hvar maður ber niður í erlendu júrónördamiðlunum, eða á samfélagsmiðlum, viðbrögðin eru alveg svakalega jákvæð,“ segir Jóhannes.

„Fólk bara elskar þetta lag og performansið og vídeóið og allt. Jafnvel á kommentakerfi Youtube, sem alla jafna er ein dýpsta ruslakista internetsins, prumpa menn glimmeri. Það er mjöööööög áhugavert mál,“ segir Jóhannes að lokum.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hefur mikil umræða skapast um framlag Hatara á íslenskum samfélagsmiðlum, þar sem fólk skiptist í tvær fylkingar, þá sem vilja senda út Hatara og þá sem vilja sniðganga keppnina með öllu vegna framkomu Ísraelsríkis í garð Palestínu manna.

Sjá einnig: Deila um framlag Hatari og þátttöku Íslands

Segir Ísland líklegan sigurvegara verði framlag Hatara valið

Þannig vekur sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson athygli á færslu breska blaðamannsins Rob Holley á miðlinum Independent en hann tjáir sig um framlag Hatara og er ljóst að hann er afar spenntur.

Holley segir að hann telji Ísland í raun líklegast til afreka í keppninni og sigurstranglegasta lagið, verði framlag Hatara valið í úrslitakeppninni þann 2. mars næstkomandi. 

„Ísland hefur komið í stað Noregs sem mitt uppáhaldsland og líklegast til að vinna Eurovision - og hvorugt landið hefur valið sitt framlag.

Hatrið mun sigra með Hatara er að gefa mér Toy/Euphoria gæsahúð. Ef það vinnur Söngvakeppnina verður erfitt að hundsa það,“ ritar blaðamaðurinn og vísar þar í sigurlag Ísraels frá því í fyrra og sigurlag Svía árið 2012 en bæði lög fóru með nokkuð öruggan sigur af hólmi í keppninni, en hlusta má á lögin hér að neðan.