Fyrr­verandi klám­mynda­leik­konan Jenna Jame­son segir að tón­listar­maðurinn Mari­lyn Man­son hafi sagt henni að hann vildi brenna hana lifandi er þau voru í stuttu sam­bandi árið 1997. Hún hafi endað sam­bandið eftir að hann greindi henni frá þessum fantasíum sínum.

Marylin Manson.
Fréttablaðið/EPA

Í við­tali við Daily Mail lýsti Jame­son sam­skiptum sínum við Man­son. Hún segir sam­bandið staðið stutt vegna undar­legrar hegðunar og kennda tón­listar­mannsins. Hann hafi í­trekað bitið hana við sam­farir og sagði við hana að hann dreymdi um að brenna hana lifandi.

„Sam­band okkar var undar­legt. Við vorum ekki lengi saman því að ég endaði það um leið og hann sagði mér að hann dreymdi um að brenna mig lifandi. Við sam­farir vildi hann bíta mig og það þótti mér ó­hugnan­legt,“ segir Jame­son. „Um leið og hann byrjaði að tala við mig með of­beldis­fullum hætti, var ég bara…vertu sæll Brian,“ en raun­veru­legt nafn hins 52 ára Man­son er Brian Warner.

Leik­konan Evan Rachel Wood steig fram í gær og sakaði Man­son um að hafa nauðgað sér er þau voru saman árin 2006 til 2010. Wood hefur sakað Man­son um að hafa heila­þvegið sig og vildi með því að greina frá þessu koma í veg fyrir að aðrar konur yrðu fyrir barðinu á honum. Fleiri konur hafa einnig sakað hann um að hafa beitt þær kynferðislegu of­beldi.

Út­gáfu­fyrir­tækið Loma Vista, þar sem Man­son var á samningi, hefur hætt sam­starfi við hann sem og sjón­varps­fyrir­tækið AMC en til stóð að hann kæmi fram í næstu seríu hryllings­þáttanna Creeps­how sem AMC framleiðir. Íyfir­lýsingu frá Loma Vista kom fram að fyrir­tækið myndi ekki lengur kynna fyrri verk Man­son, væntan­lega plötu hans eða vinna með honum með nokkrum hætti framar.

Susan Ru­bio, ríkis­þing­maður í Kali­forníu, sendi bréf til al­ríkis­sak­sóknara Banda­ríkjanna og for­stjóra al­ríkis­lög­reglunnar FBI og fór fram á rann­sókn á Man­son og meintu kyn­ferðis­of­beldi hans. Í bréfinu sagði hún meðal annars að þeir sem fremdu kyn­ferðis­brot væru oft sí­brota­menn og ef rann­sókn færi ekki fram á meintu fram­ferði Manson sé verið að bregðast fórnar­lömbum og honum gert kleift að halda á­fram að brjóta á konum.

Man­son tjáði sig um á­sakanir Wood og annarra kvenna á Insta­gram í dag. Þar sagði að persóna sín og list hefði lengi verið um­deild en á­sakanir um kyn­ferðis­of­beldi væru „hrylli­leg skrum­skæling á raun­veru­leikanum.“ Öll sam­bönd hans hafi verið byggð á sam­þykki beggja aðila og full­yrðingar um annað væru úr lausu lofti gripnar.