Fyrr­verandi barna­stjarnan og söngvarinn Aaron Car­ter opnaði sig ný­verið um hegðun söngvarans Michael Jack­son og sagði að hann hefði einungis „gert einn ó­við­eig­andi hlut við sig“ í barnæsku í við­tali vegna banda­ríska raun­veru­leika­þáttarins Marria­ge Boot Camp: Reality Stars Family Edition en E News greinir frá.

Voru um­mælin ætluð söngvaranum til varnar en Car­ter tjáði sig ekki með frekari hætti um hvað hann átti við. „Michael var frá­bær gaur eins langt og vit­neskja mín nær,“ segir söngvarinn. „Hann gerði aldrei, ég meina, hann gerði aldrei neitt sem var ó­við­eig­andi fyrir utan eitt skipti. Það var einn hlutur sem hann gerði sem var smá ó­við­eig­andi,“ segir söngvarinn.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur söngvarinn verið sakaður um kyn­ferðis­brot af Wade Rob­son og James Safechuck en á­sökunum þeirra voru gerð skil í heimildar­myndinni Lea­ving N­e­verland sem fram­leidd var í tveimur hlutum. Fjöl­skylda söngvarans hefur gefið lítið fyrir á­sakanirnar og sakað fram­leið­endur myndarinnar um að af­vega­leiða á­horf­endur.

Eins og áður segir út­skýrði Car­ter um­mælin sín ekki nánar og þá hefur fjöl­skylda Jack­son, sem lést árið 2009 ekki viljað tjá sig um um­mæli Car­ter enn sem komið er. Car­ter hefur áður gagn­rýnt þá Rob­son og Safechuck í við­tölum og sagt að þeir séu vís­vitandi að ata minningu söngvarans auri.