Rokkgoðstjarnan Mick Jagger segir söngvarann Harry Styles minna sig á sjálfan sig þegar hann var yngri, en þó aðeins á yfirborðslegan hátt.

Harry er gjarnan líkt við forsprakka Rolling Stones vegna fatastíls og sviðsframkomu. Í viðtali hjá Sunday Times sagðist Mick eiga gott samband við unga söngvarann og sjái hvað fólk eigi við þegar þeir eru bornir saman.

„Ég var reyndar með meira farða í kringum augun en hann þegar ég var á hans aldri. Og ég meina, kommon, ég var miklu meira dulkynja (e. androgynous) en hann,“ sagði Mick Jagger.

„Hann er ekki með sama söngstíl eða hreyfingar á sviði eins og ég, en hann er á yfirboðinu svolítið líkur mér. Sem var bara gott og blessað, hann getur ekkert gert að því.“

Harry sló einmitt í gegn þegar hann lék Mick Jagger í senu í bandarísku sjónvarpsþáttunum Saturday Night Live.