Harry Bretaprins og Meghan Markle eru húðlöt miðað við framleiðslu þeirra á sjónvarps-og hljóðefni fyrir streymisveiturnar Netflix og Spotify. Þetta fullyrðir blaðakonan Daniela Elser í pistli í nýsjálenska blaðinu New Zealand Herald.
Hertogahjónin skrifuðu undir samning við streymisveiturnar í september árið 2020, örfáum mánuðum eftir að hafa sagt skilið við konungsfjölskylduna. Fjórtán mánuðum síðar bólar ekkert á neinu efni.
„Þau lofuðu því að þau myndu framleiða efni sem myndi upplýsa en einnig blása almenningi byr í brjóst. Eins frábært og þetta var, hvar er þetta?“ spyr blaðakonan sem skrifar fréttir af konungsfjölskyldunni.
Harry og Meghan hafa meðal annars tilkynnt að þau hafi í bígerð teiknimyndaþættina Pearl og heimildarmynd Harry um Invictus leikana. Blaðakonan Elser setur spurningamerki við það hve mikill áhugi er á báðum verkefnum.
„Þetta hljómar eins og þetta verði mjög fallegt og öflugt efni á pappír en hljómar alls ekki eins og eitthvað sem mun kveikja í áhorfendum eða Hollywood.“